Fjölskylduvænt og friðsælt, skapandi og áhugavert

Fjölskylduvænt og friðsælt, skapandi og áhugavert

Það er kyrrlátur morgunn. Blærinn ber með sér ferskan sjávarilminn. Þögnin er friðsæl og maður finnur hvernig hún tekur sér bólfestu í sálinni. Smá saman hefur dagurinn betur í baráttunni við nóttina og bráðum mun hann ríkja einn þegar birtan tekur yfir sólarhringinn. Bærinn vaknar af svefninum, morgunhanarnir í sundlauginni stinga sér til sunds, glaðværar raddir barnanna sem ganga leið sína í skólann berast í gegnum loftið, fullorðnir halda til vinnu sinnar. Dagurinn er vaknaður í Dalvíkurbyggð.

Íbúar Dalvíkurbyggðar mynda fjölbreytt samfélag en nýleg könnun á meðal þeirra og annarra sýnir glöggt að þeir eru almennt mjög ánægðir með sveitarfélagið sitt og nefna þar sérstaklega hvað það sé öruggt, fjölskylduvænt, fallegt og friðsælt á sama tíma og það sé skapandi, lifandi, framsýnt og áhugavert. Íbúarnir eru því almennt mjög jákvæðir í garð sveitarfélagsins og telja að við höfum hér gott og öflugt samfélag.

Þar hjálpar til að atvinnulíf hefur verið stöðugt í gegnum árin og í dag eru fjölmörg störf í boði í sveitarfélaginu. Könnun sem gerð var á meðal fyrirtækja í sveitarfélaginu sýnir að atvinnulíf er í vexti sem endurspeglast í fjölda auglýstra starfa en í dag eru fjölmörg laus störf í sveitarfélaginu. Meðal annars er verið að auglýsa eftir leikskólakennurum, grunnskólakennurum, starfsmönnum fyrir veitur og hafnir og starfsfólki hjá félagsþjónustunni. Atvinna er því í boði fyrir fólk sem hefur áhuga á því að flytjast í okkar fjölskylduvæna samfélag.

Og fjölskyldan er í fyrirrúmi þegar kemur að þjónustu sveitarfélagsins en þrátt fyrir að sveitarfélagið sé ekki stórt er hér rekin metnaðarfull þjónusta fyrir íbúa. Í sveitarfélaginu eru tveir grunnskólar og tveir leikskólar en þeir taka við börnum frá 9 mánaða aldri. Allir þessir skólar taka þátt í metnaðarfullum verkefnum og starfa undir merkjum uppbyggingastefnunnar. Rekinn er öflugur tónlistarskóli með  Fjallabyggð. Aðstæður til íþróttaiðkunar eru góðar en í sveitarfélaginu er hægt að stunda m.a.  fótbolta, fimleika, skíði, sund, golf og blak.

Nokkuð gott framboð er af húsnæði til sölu í Dalvíkurbyggð auk þess sem hægt er að fá lóðir undir nýbyggingar. Fjarskipti eru góð en  á undanförnum árum  hefur verið unnið að ljósleiðaravæðingu sveitarfélagsins og þegar henni verður  lokið eiga allir íbúar að sitja við sama borð þegar kemur að  möguleikum á fjarskiptum. Samgöngur eru þægilegar en 35 mín. akstur er til Akureyrar í aðra áttina og Siglufjarðar í hina.

Heilt yfir má segja að Dalvíkurbyggð sé lifandi og skapandi samfélag sem hefur hagsmuni fjölskyldunnar að leiðarljósi og býr henni öruggt og friðsælt umhverfi með góðri þjónustu. Þetta er allt saman bara spurning um hvaða lífsstíl verður fyrir valinu. Við höfum kannski ekki allt að allra mati en við höfum margt og kannski fyrst og fremst öflugan og skapandi baráttuanda í samfélaginu sem stendur saman þegar á reynir.

Dagurinn líður áfram og íbúar Dalvíkurbyggðar halda heim á leið úr skóla og vinnu. Einhverjir hverfa til áhugamála sinna, fara á skíði, fótboltaæfingu, björgunarsveitarstörf, kóræfingu, skoða myndlistasýningu í Bergi eða heimsækja bókasafnið. Einhverjir ná sér í næringu úr fallegu umhverfinu og bregða sér í gönguferð niður á sand, upp í fjall eða inn í skógreitina okkar. Einhverjir njóta þess að fara á kaffihús, versla inn fyrir heimilið  eða einfaldlega njóta þess að komast heim í faðm fjölskyldunnar og njóta samverunnar.

Smá saman hægir á öllu, húmið kemur yfir og þögnin með því. Dagur er að kveldi kominn. Stjörnurnar kvikna ein af annarri og íbúarnir hvíla sig fyrir nýjan dag og ný ævintýri. 

Myndir úr Dalvíkurbyggð