Fjölnota hjólabraut tekin í notkun

Fjölnota hjólabraut tekin í notkun

Ungviðið gladdist mjög um helgina þegar langþráð fjölnota hjólabraut var sett upp fyrir neðan sparkvöllinn við Dalvíkurskóla. Hefur brautin verið í stöðugri notkun síðan og dynur af hjólum ungmenna á fleygiferð borist um nágrennið. 

Unnið hefur verið að þessu verkefni um nokkurt skeið en erindi hafa borst sveitarfélaginu frá ungu fólki á svæðinu sem óskaði eftir því að sett yrði upp aðstaða fyrir bretta og hjólaáhugafólk. Ungmennaráð Dalvíkurbyggðar tók málið upp á sína arma og óskaði eftir því við sveitarstjórn, við gerð síðustu fjárhagsáætlunar, að fjárfest yrði í slíkri aðstöðu. Sveitarstjórn tók vel í málið og samþykkti að leggja fjármagn í verkefnið. 

Brautin er öllum opin en lögð er áhersla á það að þeir sem nýta brautina taki tillit til annarra, ekki séu of margir í einu og hraði sé miðaður við aðra þátttakendur. Þá er skylda að hafa hjálm þegar brautin er  notuð.