Mánudaginn 8.september sl., var haldinn íbúafundur í Bergi menningarhúsi þar sem á dagskrá var tillaga að deiliskipulagi fyrir svæðið umhverfis Dalbæ.
Dagskrá fundarins var á þá leið að fyrst fór skipulagsfulltrúi yfir skipulagstillöguna og skipulagsferlið, þá kynnti Freyr Antonsson forseti sveitarstjórnar framtíðarsýn meirihlutans fyrir svæðið.

Fundurinn var afar vel sóttur og sköpuðust mjög góðar og málefnalegar umræður um málið. Þá var vakið máls á því hvernig staðið er að kynningum á skipulagsmálum í sveitarfélaginu. Sveitarfélagið tekur þær ábendingar sem fram komu á fundinum til sín og mun fara yfir hvernig betur má standa að kynningum, þar sem lögformlegar leiðir virðast ekki ná til íbúa. Þar sem enginn prentmiðill sem borinn er í hvert hús er til staðar og ekki er hægt að senda dreifibréf með Póstinum, þá þarf að leita nýrra leiða.

Við þökkum þátttakendum kærlega fyrir komuna og þeirra framlag á fundinum.