Fjölbreytt menningarhátíð um helgina

Menningarhátíðin Svarfdælskur mars verður haldin í Dalvíkurbyggð um næstu helgi, 23. og 24. mars. Þessi héraðshátíð sem haldin er í marsmánuði ár hvert leggur áherslu á svarfdælska menningu og svarfdælska sérvisku af ýmsum toga.

Hátíðin hefst að vanda á föstudagskvöldið 23. mars kl 20:30 með hinni rómuðu Heimsmeistarakeppni í Brús.

Þar er keppt um hinn eftirsótta Gullkamb en einnig eru veitt verðlaun fyrir svokallaðar "Klórningar". Í hliðarsal fer fram kennsla og kynning á þessu gagnmerka spili ,Brús, sem Svarfdælingar hafa jafnan spilað af meiri ástríðu en aðrir, og þar verður slegið upp keppni fyrir byrjendur.

Á laugardaginn 24. mars kl 14:00 er dagskrá í Byggðasafninu Hvoli um Þýðingar Daníels Á. Daníelssonar á ástarljóðum á frá miðöldum. Dagskráin er í höndum Þórarins Hjartarsonar og Jóns Laxdal.

Daníel Á. Daníelsson var héraðslæknir á Dalvík um árabil en hann var einnig mikilvirkur ljóðaþýðandi og þýddi m.a. allar Sonnettur Shakespeares. Fyrirlestur Þórarins byggir einkum á þýðingum Daníels á ástarljóðum arabískra skálda í Andalúsíu og ljóðum franskra trúbadora á 12. og 13. öld með skírskotun til íslenskrar ljóðagerðar. Jón Laxdal les nokkrar af þýðingum Daníels á þessum fornu perlum heimsbókmenntanna og Þórarinn syngur trúbadoraljóð.

Dagskrá hátíðarinnar endar svo á laugardagskvöldið kl 21:00 með því að Marsinn verður stiginn að Rimum við undirleik harmónikkuhljómsveitar. Að þessu sinni verður Þórir Baldursson sérstök gestastjarna hljómsveitarinnar. Marsinn hefur í gegn um tíðina verið ómissandi þáttur í skemmtanahaldi í Svarfaðardal. Þar eru hafðir í frammi ýmsir dansleikir s.s. hnúturinn og klúturinn, píramídi, nafnakall, potturinn og pannan, ketilinn og kannan og knéfall svo fátt eitt sé nefnt.

Þátttökugjald í heimsmeistarakeppninni og aðgangseyrir á Marsinn er kr. 500 en frítt er á dagskrána að Hvoli.