Fjárhagsáætlun Dalvíkurbyggðar vegna 2007 til síðari umræðu

Fjárhagsáætlun Dalvíkurbyggðar vegna ársins 2007 var til síðari umræðu á fundi bæjarstjórnar Dalvíkurbyggðar sem haldinn var í Mímisbrunni í gær, 19. desember. Segja má að uppbygging og framfarahugur einkenna fjárhagsáætlun Dalvíkurbyggðar fyrir árið 2007.

Heildartekjur Dalvíkurbyggðar verða rúmlega 1.036 milljónir króna en heildargjöld rúmlega 920 þús. króna. Skatttekjur aðalsjóðs eru áætlaðar tæplega 502 milljónir króna. Niðurstaða án fjármagnsliða er jákvæð um 114 milljónir. Veltufjárhlutfall samstæðureiknings er 1,41% og eiginfjárhlutfall er 0,21 %. Rekstrarniðurstaða eftir afskriftir og fjármagnsliði er jákvæð um 33 milljónir króna.

Langstærsti útgjaldaliðurinn eru fræðslumál eða um 400 milljónir króna. Vel er búið að íþrótta og æskulýðsstarfi og fara ríflega 26 milljónir í beina styrki til þess málaflokks.

Fjárhagsáætlun ársins 2007 gerir ráð fyrir miklum fjárfestingum í grunngerð samfélagsins svo sem við gatnagerð og endurhönnun og viðbyggingu við leikskólann Krílakot. Samkvæmt framkvæmdayfirliti Dalvíkurbyggðar eru framkvæmdir A - hluta fyrir um 70 milljónir króna og þarf ekki lántöku til að mæta því. Þá er gert ráð fyrir framkvæmdum við hitaveitu og vatnsveitu fyrir um 200 milljónir króna, bæði til að tryggja rekstararöryggi og til að leggja hitaveitu í Svarfaðardal.