Fjárhagsáætlun Dalvíkurbyggðar 2018 og þriggja ára áætlun 2019-2021

Fjárhagsáætlun Dalvíkurbyggðar 2018 og þriggja ára áætlun 2019-2021
Seinni umræða í sveitarstjórn um fjárhagsáætlun Dalvíkurbyggðar fyrir árið 2018 og þriggja ára áætlun 2019- 2021 fór fram 21. nóvember sl.
 
Útsvarsprósenta verður óbreytt á milli ára eða 14,52%. Áætlað er að skatttekjur Dalvíkurbyggðar hækki um 44 m.kr. á milli áranna 2017 og 2018 og gert er ráð fyrir 90 m.kr. hækkun á framlögum
frá Jöfnunarsjóði. Heildartekjur Dalvíkurbyggðar eru þannig áætlaðar um 2,22 milljarðar árið 2018.
 
Helstu niðurstöðutölur fjárhagsáætlunar Dalvíkurbyggðar árið 2018 við seinni umræðu eru þær að samstæða Dalvíkurbyggðar, A og B hluti, verður rekinn með hagnaði upp á 90 m.kr.
Aðalsjóður verður rekinn með hagnaði upp á 20 m.kr. og A hlutinn er með hagnaði upp á 69 m.kr. A og B hluti verða reknir með hagnaði árin 2019 – 2021.
 
Á árinu 2018 er veltufé frá rekstri áætlað um 303 m.kr., veltufjárhlutfall verður 1,16 og eiginfjárhlutfall verður 0,61. Heildarskuldir og skuldbindingar sveitarfélagsins munu lækka samkvæmt áætlun 2018 um 90 m.kr. frá fyrra ári og fer skuldaviðmið í 74,5% í árslok 2018 og stefnir í 55% árið 2021.
 
Fjárfestingar árið 2018 eru áætlaðar 267 m.kr. Hafnarsjóður mun fjárfestar fyrir 83 m.kr., 40 m.kr. fara til gatnagerðar, uppbygging hefst á íþróttasvæði þar sem gert er ráð fyrir 40 m.kr.
framlagi til gervigrasvallar og 130 m.kr. árið 2019. Einnig er gert ráð fyrir 35 m.kr. í nýja rennibraut við sundlaugina auk ýmissa minni fjárfestinga eignasjóðs og B hluta fyrirtækja. 
 
Ef fyrirætlanir sveitarstjórnar um afkomu næstu ára ganga eftir er sveitarfélagið komið í þá stöðu að afkoma aðalsjóðs er sjálfbær. Þá ætti að vera auðvelt að greiða upp á næsta kjörtímabili allar
vaxtaberandi skuldir. Slíkt hefði í för með sér enn betri afkomu sveitarfélagsins og frekari möguleika til fjárfestinga og lækkunar á álögum á íbúana.
 
Nánari upplýsingar veitir Bjarni Th. Bjarnason, sveitarstjóri, í síma 460 4902 eða 8995841 eða í tölvupósti: bjarnith@dalvikurbyggd.is