Fjárhagsáætlun Dalvíkurbyggðar 2016-2019

Seinni umræða í sveitarstjórn um fjárhagsáætlun Dalvíkurbyggðar fyrir árin 2016 – 2019 fór fram 24. nóvember sl. Fjárhagsáætlunin var samþykkt með 7 samhljóða atkvæðum.


Skuldahlutfall Dalvíkurbyggðar mun lækka úr rúmum 84,1% árið 2014 í 80,2% árið 2016. Ef áætlanir þriggja ára áætlunar til 2019 ganga eftir verður skuldahlutfallið komið vel undir 80%.


Útsvarsprósenta verður 14,48% en enn er óljóst með viðbótar hækkun sem kveðið verður á um í lögum um tekjustofna sveitarfélaga á grundvelli fyrirhugaðs samkomulags á milli ríkis og sveitarfélaga um endurmat á yfirfærslu þjónustu við fatlað fólk frá ríki til sveitarfélaga. Áætlað er að skatttekjur Dalvíkurbyggðar hækki um 71,7 m.kr. á milli áranna 2015 og 2016 og gert er ráð fyrir 20,3 m.kr. hækkun á framlögum frá Jöfnunarsjóði. Heildartekjur Dalvíkurbyggðar eru þannig áætlaðar um 1,94 milljarður sem er um 103 m.kr. hækkun tekna samstæðunnar á milli ára.


Helstu niðurstöðutölur fjárhagsáætlunar Dalvíkurbyggðar árið 2016 við seinni umræðu eru þær að aðalsjóður verður rekinn með tapi upp á rúmar 12 m.kr. og A hlutinn er rekinn með hagnaði upp á tæpar 30 m.kr. A og B hluti saman verða reknir með tæplega 94 m.kr. hagnaði árið 2016 ef áætlun gengur eftir. Bæði A og B hluti verða reknir með hagnaði árin 2017 – 2019.


Veltufé frá rekstri er áætlað um 288 m.kr. og handbært fé 277 m.kr., Veltufjárhlutfall verður 1,04 og eiginfjárhlutfall verður 0,60. Á árinu 2015 var heimild til lántöku upp á 40 m.kr. sem ekki verður nýtt og á árinu 2016 er heimild til lántöku upp á 110 m.kr. Afborganir langtímalána eru 152 m.kr. árið 2015 og gert er ráð fyrir afborgun upp á 104 m.kr. á árinu 2016 samkvæmt fjárhagsáætlun.


Ef fyrirætlanir sveitarstjórnar um afkomu næstu ára eiga að ganga eftir verður sveitarfélagið að gæta þess að afkoma aðalsjóðs verði sjálfbær. Þá ætti að vera auðvelt að greiða upp á næsta kjörtímabili allar vaxtaberandi skuldir. Slíkt hefði í för með sér stórbætta afkomu sveitarfélagsins og miklu meiri möguleika til fjárfestinga og lækkunar á álögum á íbúana.


Nánari upplýsingar veitir Bjarni Th. Bjarnason, sveitarstjóri, í síma 460 4902 eða 899 5841 eða í tölvupósti: bjarnith@dalvikurbyggd.is

Fjárhagsáætlun Dalvíkurbyggðar 2016-2019