Fiskidagurinn mikli tókst vel

Fiskidagurinn mikli var haldinn með miklum glæsibrag á Dalvík laugardaginn 12. ágúst, eina ferðina enn í blíðskaparveðri. 33.000 manns mættu á hátíðarsvæðið og um 108.000 matarskammtar runnu ljúflega ofan í gesti dagsins sem voru í skýjunum með daginn, lofuðu skipulagninguna og áttu ekki til orð. Fiskidagurinn mikli var nú haldinn í sjötta sinn og ávallt hefur allt verið frítt á hátíðarsvæðinu. Gestafjöldinn sem gisti í 2 - 6 nætur var á bilinu 11 - 13.000 og jókst gríðarlega frá árinu áður, varla var til sá blettur sem ekki var tjaldað á.

Föstudagskvöldið fyrir Fiskidaginn mikla var súpuköldið mikla haldið þar sem íbúar opnuðu heimili sín og buðu uppá fiskisúpu og vinalegheit. Hver sá sem bauð uppá súpu var með sína uppskrift. Um 40 heimili buðu uppá súpu opinberlega, um kvöldið kom í ljós að það var nánast súpa í öðru hverju húsi. Það voru yfir 15.000 heimsóknir þetta kvöld í þau hús sem voru opinberlega með súpu þ.e.a.s þeir sem skrifuðu sig í gestabækur. Kvöldið tókst einstaklega vel og gesti vantaði lýsingarorð til að segja frá þessu kvöldi og allt fór mjög vel fram. Ánægðastir af öllum ánægðum voru líklega þeir íbúar sem buðu uppá súpu "sælla er að gefa en að þiggja". Daginn eftir og strax um kvöldið komu sumir gestir til baka aftur og færðu gestgjöfunum litla gjöf.

Forsetahjónin Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussaieff voru heiðursgestir hátíðarinnar. Þau gengu um bæinn á föstudagskvöldinu og tóku hús á íbúum og þáðu fiskisúpu, á laugardeginum nutu þau fiskirétta og skemmtidagskrár sem í boði var á milli 11.00 og 17.00. Ólafur flutti ávarp og sagði m.a

" Hvílík gestrisni heimamanna, hvílíkt góðgæti er hér á borðum, hvílík veisla með fjörðinn og fjöllin sem salarkynni. Mér er til efs að nokkru sinni í sögu Íslands hafi svo mörgum verið gefið að borða samtímis og sýnir það stórhug ykkar Dalvíkinga"

og aftur vitnum við í ræðu forsetans

" Gestrisni Dalvíkinga eru engin takmörk sett og í gærkvöld gengum við Dorrit um bæinn og nutum þess eins og margir fleiri að taka hús á heimamönnum. Fiskisúpukvöldið er frábær hugmynd. Tugir heimila hér á Dalvík standa þá öllum opin. Hver sem er getur gengið inn og ég veit ekki um annað byggðarlag sem þannig býður ókunnugum uppá á mat og vísar öllum sem að garði ber beint til stofu. Já, Dalvíkingar eru engum líkir. Það hafið þið svo sannarlega sýnt með því að efna til Fiskidagsins mikla; eruð um leið fordæmi og fyrirmynd, sýnið öðrum byggðarlögum og þjóðinni allri hvað hægt er að gera.

Dagskrá dagsins gekk afar vel fyrir sig. 4613 manns komu um borð í Varðskipið Ægi , um 1000 börn fóru á hestbak, Samhentir Kassagerð gáfu 10.000 íspinna, 13.000 Candyflos voru gefin, 35 hljómsveitir spiluðu á tveimur sviðum, Grímseyjarferjan Sæfari fór með 1100 gesti í siglingu um fjörðinn, hátt í 200 bifhjólamenn óku um svæðið og sýndu fáka sína, þúsundir gesta skoðuðu stærstu ferskfiskasýning Evrópu með um 200 tegundum, hákarlaskurður sýndur, Arngrímur Jóhannsson sýndi listflug, Snjóbyssur skíðafélags Dalvíkur mynduðu regnboga í samvinnu við sólina á meðan að stomphópur sló taktinn. Um kvöldið var síðan flugeldasýning í boði Sparisjóðs Svarfdæla sem lengi verður í minnum höfð.

Að sögn lögreglunnar á Dalvík gekk helgin vel fyrir sig og í raun alveg ótrúlegt miðað við mannfjöldann. Gestir Fiskidagsins mikla eru allt saman fjölskyldufólk.

Það var tjaldað út um allt og auk þess voru víðast hvar gestir í heimahúsum þannig að íbúatala bæjarins um helgina hljóp á tugum þúsunda. Lögreglan hafði þó nokkurn viðbúnað enda um að ræða einhvarja fjölmennustu uppákomu ársins. Fjölgað var í lögregluliðinu og sérsveit lögreglunnar var til taks en hún átti rólega daga.

Umferð í bænum gekk áfallalítitið um helgina þurfti lögreglan lítil afskipti að hafa af henni. Þung umferð var úr bænum allan sunnudaginn. Sex manns voru teknir um helgina grunaðir um ölvun við akstur en þess má geta að margir voru stoppaðir í tengslum við átak lögreglunnar gegn ölvunarakstri. Lögreglan segir greinilegt að gestir á Fiskidegi séu almennt á rólegum nótum og stemmningin almennt góð og jákvæð. Menn veittu því t.d. athygli að ekki var vín að sjá á nokkrum manni af öllum þeim þúsundum sem voru á hafnarsvæðinu á laugardaginn með einni undantekningu þó. Sá sem þar átti í hlut fann hjá sér hvöt til að stinga sér til sunds um miðjan daginn enda blíðskaparveður og spegilsléttur sjór.