Fiskidagurinn mikli tilnefndur til Fjöreggsins

Fiskidagurinn mikli tilnefndur til Fjöreggsins

Sex aðilar eru tilnefndir til fjöreggs MNÍ 2008. Fjöreggið er veitt fyrir lofsvert framtak á matvæla- og næringarsviði á Matvæladegi MNÍ í dag klukkan 13:30. 

Matvæla- og næringarfræðafélag Íslands hefur veitt Fjöreggið árlega síðan 1993 með stuðningi frá Samtökum iðnaðarins. Fjöreggið er íslenskt glerlistaverk sem veitt er fyrir lofsvert framtak á matvæla- og næringarsviði. Verðlaunahafi er valinn af fimm manna dómnefnd sem er að þessu sinni skipuð af Ragnheiði Héðinsdóttur, matvælafræðingi, Guðrúnu Gunnarsdóttur matvælafræðingi, Iðunni Geirsdóttur matvælafræðingi, Ragnheiði Guðjónsdóttur næringarfræðingi og Kolbrúnu Björnsdóttur útvarpskonu. Félaginu barst fjöldi ábendinga um verðuga verðlaunahafa en sex aðilar komust í gegnum forval dómnefndar, þeir eru:

Fiskidagurinn mikli: Fiskidagurinn mikli hefur tengt saman ferðaiðnaðinn og íslenskar matarhefðir. Fiskidagurinn mikli gegnir hlutverki við að gera ímynd fisksins jákvæðari og vekja ungt fólk til umhugsunar um fiskneyslu.

Friðrik V: Á veitingahúsinu Friðrik V. á Akureyri hefur verið unnið öflugt starf við að kynna matvæli úr héraðinu. Þannig hefur þjóðlegum hefðum verið haldið á lofti. Með vinnu sinni, áhuga og elju hefur Friðrik V Karlsson smitað aðra og haft meiri áhrif en flestir aðrir við að sýna þá möguleika sem felast í notkun á afurðum héraða.

Matur, saga og menning: Félagið er landsfélag áhugafólks um mat og matarmenningu og er hlutverk þess að efla þekkingu á íslenskum mat og vekja áhuga á þeim menningararfi sem felst í matarhefðum og matargerð. Félagið hefur staðið fyrir fræðslufundum og uppákomum af ýmsu tagi og kynnt þætti í sögu mataræðis á Íslandi, matargerð, hráefni eða vinnslu.

Ávaxtabíllinn: Frumkvöðlastarf sem eykur aðgengi fólks að ávöxtum og hvetur til ávaxtaneyslu í dagsins önn. Akandi áminning um vítamínsprautuna sem ávextir eru. Ávaxtabíllinn hefur breytt neyslumynstri á kaffistofum fyrirtækja og stofnana.

Hollt og gott í hádeginu: Hollt í hádeginu hefur í nokkur ár séð um matseld í skólum nokkurra bæjarfélaga með góðum árangri. Mikið er lagt uppúr fjölbreytni í gerð matseðla og samsetningu máltíða samkvæmt ráðleggingum Lýðheilsustöðvar. Einungis er notað fyrsta flokks hráefni og birgjar vandlega valdir.

Myllan: Samkvæmt heilsustefnu Myllunar frá árinu 2006 hefur fyrirtækið meðal annars að markmiði að auka úrval og fjölbreytni í trefjaríkum brauðvörum. Með trefjaríkum vörunýjungum og öflugri markaðssetningu stuðlar Myllan að aukinni trefjaneyslu Íslendinga og hvetur aðra brauðframleiðendur til að feta í sömu spor.

Tilkynnt verður hver hlýtur Fjöregg MNÍ 2008 við setningu matvæladags Matvæla- og næringarfræðafélags Íslands í Iðnó þann 16.október næst komandi og mun Jón Steindór Valdimarsson framkvæmdasjóri Samtaka iðnaðarins afhenda Fjöreggið. Yfirskrift matvæladagsins er að þessu sinni „ Íslenskar matarhefðir og héraðskrásir“.

Matvæladagur:
Fjölbreytt dagskrá matvæladags MNÍ 2008

Í tilefni af matvæladeginum verður efnt til viðamikillar dagskrár í Iðnó þar sem leitast verður við að fjalla um málefni dagsins frá sem flestum hliðum. Fyrirlesarar hafa verið fengnir frá ýmsum greinum á þessu sviði. Þá mun Dr. Richard Tellström halda erindi um upprunalegar og tilbúnar matarhefðir - héraðstengingu, raunveruleikaflótta og nautn í matvælaþróun samtímans (authentic food vs. invented food traditions - Locality, escapism and hedonism as a contemporary food identity). Dr. Richard Tellström er vísindamaður við Örebro háskólann í Svíþjóð. Í doktorsverkefni sínu (2006) rannsakaði hann matarmenningu í Svíþjóð og Norðurlöndunum út frá þjóðfræðilegu sjónarhorni. Dr. Tellström vinnur einnig sem fyrirlesari við fjölda sænskra háskóla og sem ráðgjafi stjórnvalda og fyrirtækja um hvernig matarmenning getur nýst til framdráttar fyrir landssvæði í efnahagslegri lægð með því að þróa matvæli og styrkja ferðaiðnað tengdan matargerð.