Fiskidagurinn mikli nálgast

Eins og áður hefur komið fram hér á vef Dalvíkurbyggðar er Fiskidagurinn mikli í nánd og mikið um að vera. Íbúar sem og aðrir eru spenntir fyrir helginni og nú er bara að treysta á veðrið. Hópur frá sjálfboðaliðasamtökum SEEDS hefur nú dvalið í Dalvíkurbyggð í tæpa viku og hafa meðal annars hjálpað til við skreytingar fyrir Fiskidaginn Mikla. Meðfylgjandi mynd sýnir nokkra sjálfboðaliðanna við undirbúninginn.

Fiskidagurinn mikli er haldinn í sjötta sinn í ár. Frá upphafi hefur markmiðið með þessum degi verið að fá fólk til þess að koma saman, hafa gaman, borða fisk og að allt á hátíðarsvæðinu sé frítt, matur skemmtun og afþreying.  Dagurinn er með svipuðu sniði og áður en alltaf  bætast nýjar hugmyndir við t.d. Fiskisúpukvöldið mikla sem var í fyrsta skipti í fyrra og sló svo sannarlega í gegn. Á föstudagskvöldinu fyrir Fiskidaginn mikla buðu íbúar gestum og gangandi heim til sín í fiskisúpu og vinalegheit. Ef tveir kyndlar voru logandi fyrir utan húsið var þar súpa í boði, 4800 gestir skrifuðu í gestabækur í um 30 húsum. Það er mikil eftirvænting fyrir þessari uppákomu í ár ekki síst hjá þeim sem bjóða heim og hafa margir undirbúið sig vel og lengi, t.d með því útvega sér stærri potta, þróa réttu uppskriftina og sumir verða með tónlistaratriði í sínum görðum.

Ein af nýjungum Fiskidagsins mikla í ár er að allar götur á Dalvík fá ný nöfn. Í eina viku heita göturnar eftir þekktum og minna þekktum fiskum t.d. breytist Mímisvegur í Risarækjuveg, Karlsrauðatorg í Blálöngutorg og Svarfaðarbraut í Lúðubraut. Nýju merkingarnar verða settar upp við hlið gömlu nafnanna og skemmtileg hugmynd er að fá sér göngutúr um bæinn og sjá hvað göturnar heita.

Í ár eru 14 réttir á matseðlinum og mikið af nýjungum m.a. má finna rétti sem fyrirfinnast ekki annarsstaðar í heiminum líkt og saltfiskvöfflur, nýjung sem á eftir að slá í gegn svo um munar, vöfflurnar verða bakaðar á staðnum í 50 vöfflujárnum og bornar fram með súrsætri sósu. Boðið verður uppá spriklandi nýja bleikju, sushi,  2-3 aþjóðlega rétti. Við ætlum að slá íslandsmet, þegar framreidd verður asísk fiskisúpa í stærsta súpupotti landsins.

Frekari upplýsingar um Fiskidaginn mikla má finna á www.fiskidagur.muna.is.