Fiskidagurinn mikli 2010

Undirbúningur fyrir 10 ára afmæli Fiskidagsins mikla gengur mjög vel......

Fiskidagurinn mikli verður haldinn með pompi og pragt í tilefni af 10 ára afmælinu...já ótrúlegt en satt, Fiskidagurinn mikli verður haldinn í tíunda sinn 4. - 8. ágúst n.k. Það verður heilmikið af nýjungum á dagskránni og matseðlinum af þessu tilefni. T.d í vikunni fyrir Fiskidaginn mikla verður klassísk tónlistarhátíð sem hefst strax á frídegi Verslunarmanna, Fiskidagskappreiðar, Fiskidags 1/2 maraþon, Fiskidagsfjallganga, gospelmessa, listsýningar og tónleikar. Það verður margt nýtt og spennandi á matseðlinum. Í tilefni af 10 ára afmælinu verðum við með sérstaka kvölddagskrá á laugardagskvöldinu áður en að glæsilegri flugeldasýningu verður skotið upp. Sýningin í ár verður eftirminnileg og hún verður í boði tveggja brottfluttra Dalvíkinga, Friðriks Más Þorsteinssonar ( Bróa) sem býr í Bretlandi og Jóns Ægis Jóhannssonar sem býr í Kanada.

Fiskisúpukvöldið mikla 2010
Íbúar í Dalvíkurbyggð mega vera stoltir af hátíðinni sinni og þeirri góðu og skemmtilegu vinnu sem þeir hafa lagt fram. Súpukvöldið er orðið meira en landsfrægt og til gamans má geta að á nokkrum stöðum á landinu hafa menn tekið okkur hér til fyrirmyndar og opna heimili sín og bjóða uppá súpur, vöfflur, kaffi, bakkelsi o.fl. Á 10 ára afmæli hátíðarinnar vonumst við til að allir þeir sem hafa verið með súpu verði með áfram, en ekki er síður mikilvægt að fá nýja matgæðinga í hópinn. Áhugasamir skrái sig sem allra fyrst á póstfangið julli@julli.is. Að vera með á súpukvöldi er afar skemmtilegt og gefandi. Þeir sem skrá sig fá síðan bréf með öllum upplýsingum um innihald súpukvöldspakkans.

Rúgbrauð
Kæru rúgbrauðsbakarar, takk fyrir öll góðu brauðin síðastliðin 9 ár. Fjörið heldur áfram og nú þurfum við á öllum tiltækum rúgbrauðsbökurum að halda. Tekið verður á móti rúgbrauðum fimmtudaginn 5. ágúst í fiskverkun O. Jakobssonar milli kl. 13:00 og 15:00.

Upplýsingar í stóra Fiskidagsblaðið – afar mikilvægt !
Þriðjudagurinn 13. júlí er allra síðasti dagur til að koma upplýsingum í blað Fiskidagsins mikla. Vinsamlegast sendið á póstfangið julli@julli.is.

„Allt í lag fyrir Fiskidag“
Fiskidagurinn mikli hefur sannarlega fegrað Dalvíkina. Höldum áfram góðri vinnu, tökum höndum saman og brettum upp ermar. Að venju munu Húsasmiðjan og Fiskidagurinn mikli standa í sameiningu að fegrunarátaki í Dalvíkurbyggð sem ber heitið „Allt í lag fyrir Fiskidag“. Að þessu sinni breytum við aðeins um og nú verða ekki valin fallegustu húsin, fyrirtæki og býli, heldur munu allir sem versla í Húsasmiðjunni og Blómaval fá nafnið sitt í pott og á sviðinu á Fiskidaginn mikla verða veglegir vinningar dregnir út. Frábær Fiskidags-afmælistilboð frá Húsasmiðjunni verða auglýst síðar. Við hvetjum alla til að taka þátt í að fegra byggðarlagið okkar.

Skreytingar
Á síðastliðnum árum hafa Fiskidagsskreytingar heimafólks vakið mikla lukku. Nú skorum við á alla að skreyta og gera þennan skemmtilega þátt hátíðarinnar enn veigameiri. Skreytum umhverfið með því sem tengist þema dagsins: fiskum, sjóarakörlum og -kerlingum, netum, bátum o.s.frv. Einnig minnum við á ljósaseríur, ljósker og annað sem lýsir okkur veginn. Fiskidagurinn mikli hefur undanfarin ár lagt til fiskaskilti úr timbri við öll hús í Dalvíkurbyggð sem íbúar hafa skreytt með ýmsu móti og sett út við lóðamörk. Þátttaka hefur verið feikimikil og sjá mátti fiskaskilti við hvert hús. Við hvetjum alla til að grafa upp skiltin og reka niður fyrir framan húsin líkt og fyrri ár, nú að morgni miðvikidagsins 4. ágúst. Þeir sem eru nýfluttir geta nálgast fiskaskilti á gamla kaupfélagsloftinu eða hringt í Júlla í síma 897-9748. Í ár sendum við blöðrur í hvert hús í Dalvíkurbyggð eins og á síðasta ári.

Nýtt – fiskidagsminningar á minningasnúru
Í tilefni af 10 ára afmæli Fiskidagsins mikla hvetjum við fólk til að huga að minningum tengdum Fiskideginum mikla síðastliðin níu ár. Við leggjum til að hvert heimili búi til vísu/r og hugi að myndum sem teknar hafa verið í tenglsum við Fiskidaginn mikla. Þetta verði útbúið t.d. á snúru sem sett er á lóðir heimila í Dalvíkurbyggð þannig að gestir og gangandi geti lesið vísurnar og skoðað myndirnar. Þetta mætti einnig festa á skilti eða stilla upp með viðlíka hætti. Gaman væri að fá sendar nokkrar vísur frá hagyrtum, sem tilbúnir verða með vísur fyrir miðjan júlí svo þeim megi koma í Fiskidagsblaðið.


Með allra bestu kveðjum,
framkvæmdanefnd Fiskidagsins mikla.
Nánari upplýsingar veitir Júlli Júl í síma 897-9748.