Fiskidagurinn mikli 2009

Fiskidagurinn mikli 2009

Talið er að á milli 36.000 og 40.000 manns hafi sótt Dalvík heim um helgina í einmuna veðurblíðu allan tímann en þar var Fiskidagurinn mikli haldinn hátíðlegur. Umferð gekk mjög vel miðað við fjölda og er gestum þakkað sérstaklega fyrir þolinmæði og rólegan akstur. Bærinn var ríkulega skreyttur og töldu margir að ganga um bæinn væri eins og að vera á að risastórri skraut og listasýningu. Að sögn Vegagerðarinnar var 25 % aukning á bílaumferð til Dalvíkur yfir Hámundastaðahálsinn þessa viku miðað við árið 2008.

Vináttukeðjan.
Föstudaginn 7. ágúst var dagskrá í kirkjubrekkunni sem er nokkurskonar setningarathöfn fyrir Fiskidaginn mikla og allt sem að honum snýr. Vináttukeðjan er hlý og notaleg stund þar sem að staldrað er við og hugað að vináttunni og náungakærleikanum. Óskar Pétursson, Júlíus og Baldur synir Rúnars Júlíussonar Friðrik Ómar Hjörleifsson, Gyða Jóhannesdóttir, Karlakór Dalvíkur og leikskólabörn sungu. Þórarinn Eldjárn flutti vinátturæðu, 5000 friðardúfublöðrum var sleppt, knúskorti dreift og að lokum knúsuðust allir viðstaddir eða um 10.000 manns sem á staðnum voru og héldu því síðan áfram alla hátíðina og lögðu línurnar fyrir gott andrúmsloft helgarinnar.

Fiskisúpukvöldið mikla.
Á föstudagskvöldinu buðu 120 fjölskyldur í Dalvíkurbyggð uppá fiskisúpu og vinalegheit. Hver sá sem bauð uppá súpu var með sína uppskrift. Yfir 25.000 manns voru á röltinu þetta kvöld og nutu gestrisni heimamanna. Kvöldið tókst einstaklega vel og gesti vantaði lýsingarorð til að segja frá þessum einstaka viðburði. Ánægðastir af öllum ánægðum voru líklega þeir íbúar sem buðu uppá súpu. Teljari Vegagerðarinnar á Hámundarstaðahálsi sem er úr innkeyrslunni úr suðurátt taldi um 7000 bíla bara þennan dag og 7400 daginn eftir.

Fiskidagurinn mikli.
Laugardaginn 8. ágúst milli kl 11.00 – 17.00 var Fiskidagurinn mikli haldinn hátíðlegur í níunda sinn á hafnarsvæðinu á Dalvík. 130.000 matarskammtar eða um 12 tonn runnu ljúflega ofan í gesti Fiskidagsins mikla. Nokkur met voru sett en nú voru grillaði yfir 13.000 fiskborgarar og aldrei hefur verið eins lítið eftir af birgðum og nokkrir réttir kláruðust á endasprettinum. Fjölbreytt dagskrá gekk afar vel fyrir sig og fjölskyldan gat fundið margt til að gera saman. Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja hélt ræðu dagsins og á annað hundrað skemmtikrafta komu fram. Hátíðinni lauk síðan með bryggjusöng þar sem um 20.000 manns söfnuðust saman á Kaupfélagsbakkanum og sungu af innlifun. Punktinn yfir setti síðan björgunarsveitin á Dalvík sem hefur á að skipa mjög hæfum flugeldasýningar stjórnendum með einni alflottustu flugeldasýningu sem hefur verið boðið uppá hér á landi og vitnin eru mörg. Sýningin náði yfir allt hafnarsvæðið, á ytri grjótgarðinn og neðansjávar.

Fiskidagurinn mikli 2009 og allt sem að honum snýr tókst í alla staði mjög vel og er það mál jafnt gesta sem skipuleggjenda að hátíðin í ár hafi verið sú besta frá upphafi og má þar m.a nefna dagskrána á aðalsviðinu, skipulag, matseðil, veður og ógleymanlega flugeldasýningu.


Allar nánari upplýsingar gefur framkvæmdastjóri Fiskidagsins mikla
Júlíus Júlíusson – 8979748.

www.fiskidagur.muna.is