Fiskidagurinn mikli 2008 - Fréttatilkynning

 Aldrei fleiri á viðburðum Fiskidagsins mikla.
Skipulagið lofað og allt fór mjög vel fram.
 Besti Fiskidagurinn mikli frá upphafi.
 Flugeldasýning sem lengi verður í minnum höfð.
 6000 manns mynduðu risaknús.
 Forsætisráðherra heiðursgestur.
25.000 manns á bryggjusöngnum.

Talið er að um 36.000 manns hafi sótt Dalvík heim um helgina en þar var Fiskidagurinn mikli haldinn hátíðlegur. Að sögn lögreglunnar á Dalvík gekk allt vel þrátt fyrir þennan gífurlega fjölda, bæði hvað varðar umferð og almenna hegðun. Geir H Haarde forsætisráðherra var heiðursgestur Fiskidagsins mikla og flutti ávarp.

Vináttukeðjan.
Föstudaginn 8. ágúst var dagskrá í kirkjubrekkunni sem er nokkurskonar setningarathöfn fyrir Fiskidaginn mikla og allt sem að honum snýr. Vináttukeðjan er hlý og notaleg stund þar sem að staldrað er við og hugað að vináttunni og náungakærleikanum. Kristjana Arngrímsdóttir, Friðrik Ómar Hjörleifsson, Gyða Jóhannesdóttir, Karlakór Dalvíkur og leikskólabörn sungu, Jón Helgi Þórarinsson flutti vinátturæðu, 5000 friðardúfublöðrum var sleppt, knúskorti dreift og að lokum knúsuðust allir viðstaddir eða um 6000 manns sem á staðnum voru og héldu því síðan áfram alla hátíðina og lögðu línurnar fyrir gott andrúmsloft helgarinnar.

Fiskisúpukvöldið mikla.
Á föstudagskvöldinu buðu 80 fjölskyldur í Dalvíkurbyggð uppá fiskisúpu og vinalegheit. Hver sá sem bauð uppá súpu var með sína uppskrift. Um 22.000 manns voru á röltinu þetta kvöld og nutu gestrisni heimamanna. Kvöldið tókst einstaklega vel og gesti vantaði lýsingarorð til að segja frá þessum einstaka viðburði. Ánægðastir af öllum ánægðum voru líklega þeir íbúar sem buðu uppá súpu. Allt fór vel fram og einstakt að sjá svona mikið af fólki ganga vel um og alla með bros á vör.

Fiskidagurinn mikli.
Laugardaginn 9. ágúst milli kl 11.00 – 17.00 var Fiskidagurinn mikli haldinn hátíðlegur í áttunda sinn á hafnarsvæðinu á Dalvík. 120.000 matarskammtar eða um 12 tonn runnu ljúflega ofan í gesti Fiskidagsins mikla. Fjölbreytt dagskrá gekk afar vel fyrir sig og fjölskyldan gat fundið margt til að gera saman. Hátíðinni lauk síðan með bryggjusöng þar sem að hátt í 30.000 manns söfnuðust saman á Kaupfélagsbakkanum og sungu með Matta og Pétri Dúndurfréttamanna. Punktinn yfir setti síðan björgunarsveitin á Dalvík sem hefur á að skipa mjög hæfum flugeldasýningar stjórnendum, með aldeilis frábærri fugeldasýningu sem lengi verður í minnum höfð og margir telja að verði seint toppuð. Sýningi náði yfir allt hafnarsvæðið, á ytri grjótgarðinn og neðansjávar. Sýningin var í boði  Sparisjóðs Svarfdæla, Fiskidagsins mikla  og björgunarsveitarinnar á Dalvík.

Fiskidagurinn mikli 2008 og allt sem að honum snýr tókst í alla staði mjög vel og er það mál jafnt gesta sem skipuleggjenda að hátíðin í ár hafi verið sú besta frá upphafi, og má þar m.a nefna dagskrána á aðalsviðinu, skipulag, matseðil, veður, einstaka flugeldasýningu og almenna hegðun.