Fimmtudagur fyrir Fiskidaginn mikla

Fimmtudagur fyrir Fiskidaginn mikla

Nú er heldur betur að styttast í Fiskidaginn mikla og bærinn að fyllast af fólki.

Sólin er farin að skína í gegnum skýin og víða glittir í bláan himin. Veðurspáin framundan er góð og stefnir í frábæran Fiskidag eins og alltaf.

Bærinn er fullur af lífi enda nóg að gera fimmtudaginn fyrir Fiskidaginn mikla. Risasviðið rís örugglega á hafnarsvæðinu, fólk dyttar að húsum, slær garða og skreytir, búið að pakka fiskinum fyrir grillin og forstofan við skrifstofu Fiskidagsins mikla orðin full af rúgbrauði.

Stemmingin er róleg og þægileg og þeir gestir sem komnir eru hafa svo sannarlega haft Fiskidagsboðorðin 10 í heiðri en þau eru:

Við göngum vel um
Við virðum hvíldartímann
Við virðum náungann og umhverfið
Við verjum Fiskdeginum mikla saman
Við virðum hvert annað og eigur annara
Við virðum útivistarreglur unglinga og barna
Við erum dugleg að knúsa hvert annað
Við beygjum okkur 2 sinnum á dag eftir rusli
Við förum hóflega með áfengi og virðum landslög.
Við hjálpumst að við að halda Fiskidagsboðorðin.

Við hvetjum alla til þess að hafa þessi einföldu boðorð í huga alla helgina og hjálpast þannig að við að gera Fiskidaginn mikla að ánægjulegri upplifun fyrir alla.

Allar upplýsingar sem tengjast tjaldsvæðum, akstursleiðum um bæinn, salernum, dagskrá, matseðli og fleira er að finna á heimasíðu Fiskidagsins mikla www.fiskidagurinnmikli.is.

Fiskidagurinn mikli 2018

 Fiskidagurinn mikli 2018