Fimmta upplýsingabréf sveitarstjóra

Mynd: Haukur Snorrason
Mynd: Haukur Snorrason

Vegna samkomubanns og takmarkana stjórnvalda.

Kæru íbúar Dalvíkurbyggðar.

Í fjórða upplýsingabréfi mínu í lok síðustu viku var enn ekki greint smit innan byggðarlagsins en skjótt skipast veður í lofti. Í gærkvöldi var fyrsta smitið í Dalvíkurbyggð staðfest og ég sendi viðkomandi mínar bestu bataóskir. Í kjölfarið setti smitrakningarteymi almannavarna viðkomandi einstakling í einangrun og sjö einstaklinga í sóttkví.

Við þurfum sem samfélag að treysta vinnubrögðum sóttvarnalæknis og fyrirskipunum sem þaðan koma og frá heilbrigðisstarfsfólki. Þeir sem fylgjast daglega með tölum um smit og sóttkví sjá að þeirra vinnubrögð eru að skila okkur góðri útkomu í þessu ófyrirséða ástandi. Undanfarið hafa fleiri verið að ná bata heldur en þeir eru sem fá staðfest smit. Það er afar jákvætt og styrkir okkur í trúnni um að rétt og vel sé á málum haldið.

Enn vil ég ítreka hversu áríðandi er að sýna ítrustu gát í öllum samskiptum manna á milli, gæta fyllsta hreinlætis og fylgja sóttvarnaleiðbeiningum. Þannig getum við lagt okkar að mörkum til að halda smitum í lágmarki. Ábyrgðin er í okkar höndum.

Nú er páskafríið framundan og sannarlega þurfa flestir að lifa þessa páska með öðrum hætti en þeir eru vanir. Engin ferðalög og engar samkomur. Engir hittingar með vinum og sínum nánustu, engin matarboð eða spilakvöld. Þá er að muna að þetta er tímabundið ástand og það er enginn dalur svo djúpur að ekki finnist í honum botninn. Eftir það liggja leiðir upp á við á ný.

Ég vil hrósa sérstaklega þeim sem eru duglegir að létta okkur lundina á samfélagsmiðlum. Það skiptir sannarlega máli. Þar fer fremstur meðal jafninga Júlli okkar Júl, sem dreifir daglega gleði og gamanmálum, hrósi og kærleik. Ef einhver er dapur er hann það ekki eftir lestur pistlanna hans Júlla okkar. Takk fyrir það og takk þið öll hin sem gefið okkar daglega lífi lit. Það eru fjölmargir þannig gleðipinnar og húmoristar á samfélagsmiðlunum og gaman þegar við hin fáum að njóta þess.

Að lokum vil hrósa ykkur íbúar í Dalvíkurbyggð. Við lifum við takmarkanir á okkar venjulega lífi en mín upplifun er sú að fólk sé að nálgast ástandið af ábyrgð og einbeitingu með jákvæðni að leiðarljósi. Það er sannarlega þakklætis vert og gaman að upplifa slíka samstöðu í sveitarfélaginu nú sem áður.

Með mínum bestu óskum um gleðilega páska.

Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri.