Fimmta ganga Gönguviku Dalvíkurbyggðar, Steinboginn

Fimmta ganga Gönguviku Dalvíkurbyggðar, Steinboginn

Í dag var farin fimmta ganga gönguviku Dalvíkurbyggðar. Gengið var frá Klængshóli í Skíðadal inn Skíðadal og framhjá Heiðinnamannadal og upp Heiðinnamannafjall að Steinboga sem er þar í hlíðinni. Sjötíu og þrír hófu göngu í frábæru veðri. Gangan frá Klængshóli inn að Heiðinnamannafjalli er frekar létt og hækkun er jöfn og þétt. Þegar komið er yfir Heiðinnamannadal og að fjallinu tekur við snörp brekka uppá syllu þar sem hægt er að nálgast Steinbogann glæsilega. Þegar komið er uppá sylluna þarf að fylgja henni inn og er þar bratt niður og þarf fólk að fara mjög varlega. Þegar sést í Steinbogann þarf að fara upp smá bratta til að nálgast Steinbogann en hann sést þó frá syllunni. Steinboginn minnir á risaeðlu þar sem hún teygir hálsinn. Steinboginn er stórfenglegt náttúru fyrirbrigði þar sem ekkert í þessu fjalli gefur til kynna að slíkt gæti verið fyrir hendi. Hægt er að fara upp fyrir Steinbogann en þarna þarf að fara mjög varlega þar sem hann er í miklum bratta og einnig þarf að passa að enginn sé fyrir neðan þar sem steinar eru mjög lausir í brekkunni og þeir geta farið af stað. Haldið var áfram meðfram syllunni inní Gljúrárdal og inn að Gljúfrárjökli sem þar er innst. Eftir að hafa farið meðfram syllunni dálitla stund er hægt að fara að lækka flugið og fara niður í dalsbotninn. Farið var langleiðinna að jökli og þar yfir snjóbrú. Farið var til baka hinum megin ár og þar yfir göngubrú sem er yfir Skíðadalsá. Út Skíðadal var farið og að gagnamannakofanum Stekkjarhúsi. Þaðan lá leið fólks að Kóngsstöðum. Nokkrir bílar höfðu verið skildir eftir þar áður en farið var yfir að Klængshóli. Mjög skemmtilegur dagur og veðrið lék við fólk. Ferðin í dag tók í það heila níu klukkustundir sem var heldur meira en áætlað var.

Á morgun er förinni heitið frá Hofi í Svarfaðardal klukkan 11:00 upp Hofsárdal og upp á Hvarfshnjúk þar sem sjá má alla bæji Svarfaðardals og Skíðadals.

Fleiri myndir úr þessari ferð og öðrum hér.