Eyðibýlaganga

Eyðibýlaganga

Á fjórða degi gönguviku lagði fríður hópur göngufólks upp frá Kóngsstöðum og var ferðinni heitið að eyðibýlunum sem kúra í vestanverðum Skíðadal.

Þátttakendur voru 22 auk tveggja leiðsögumanna og þar af voru þrjú börn. Þegar lagt var af stað var hitastigið um 25°, skýjað og stafalogn.

Leiðin lá að Hverhóli þar sem staldrað var við, hugað að horfnu mannlífi og rifjuð upp sögubrot. Þaðan var haldið að Krosshóli, horft yfir til Holárkots og fjallanna austan ár og hugsað hlýtt til huldufólksins í Kálfadal. Nestisstopp var gert í Stekkjarhúsi áður en lagt var af stað til Sveinstaða og reynt að krækja hjá hverri keldu á leiðinni en þær eru ófáar.


Á Sveinsstöðum var ljúft að setjast niður í gömlu, hlöðnu réttinni, maula síðasta nestisbitann og dást að agnarsmáum steindepilsunga í grjótvegg. Á bakaleið hittum við gönguhóp úr Steinbogagöngu og í Stekkjarhúsi var síðan slegið til kvöldvöku/síðdegisvöku þar sem boðið var upp á súpu og Tjarnarbræður sögðu sögur af gangnamönnum í Sveinsstaðaafrétt og tóku lagið.

Sjá myndir á www.dalvik.is/gonguvika