Endurspeglar rekstur Dalvíkurbyggðar hátt þjónustustig ?

Endurspeglar rekstur Dalvíkurbyggðar hátt þjónustustig ?

Samkvæmt 7. gr. sveitarstjórnarlaga þá er sveitarfélögum skylt að annast þau verkefni sem þeim er falin í lögum. Sveitarfélög skulu vinna að sameiginlegum velferðarmálum íbúanna eftir því sem fært þykir á hverjum tíma. Sveitarfélög geta tekið að sér hvert það verkefni sem varðar íbúa þeirra, enda sé það ekki falið öðrum til úrlausnar samkvæmt lögum.

• Grunnþjónusta sveitarfélaga- lögbundin.
Lögbundin verkefni sveitarfélaga eru helst rekstur grunnskóla, félagsþjónusta skv. skilgreiningu laga, brunamál, skipulags- og byggingamál, vatnsveita, fráveita, hollustuhættir og mengunarvarnir.

• Grunnþjónusta sveitarfélaga- lögbundin en þjónustustig ákveðið af sveitarfélagi.
Starfsemi leikskóla er til dæmis flokkuð sem grunnþjónustuverkefni en skyldur sveitarfélaga vegna leikskóla eru um margt ólíkar þeim lagareglum sem gilda um grunnskóla, það er að ekki er um að ræða afdráttarlausan rétt allra barna til þess að fá vist á leikskóla.

• Valkvæð verkefni
Svo eru önnur verkefni sem ekki eru lögbundin en sveitarfélög vilja taka þátt í, svo sem íþrótta- og tómstundamál, bygging og rekstur sundlauga og íþróttamannvirkja - að undanskildu aðstöðu fyrir íþróttakennslu grunnskóla, menningarmál, rekstur tónlistarskóla, samgöngumál, styrkir og samstarf við félagasamtök, styrkveitingar almennt.

Taflan hér á eftir sýnir hlutfall málaflokka í Aðalsjóði (A-hluti) af Skatttekjum sveitarfélagsins samkvæmt fjárhagsáætlun 2013. Skatttekjur samanstanda af útsvari, fasteignaskatti, framlögum frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og lóðarleigu. Undir Sameiginlegan kostnað (21) fellur til dæmis sveitarstjórn, byggðarráð, rekstur Skrifstofa Dalvíkurbyggðar, endurskoðun, kosningar, kynningarmál. Upphæðir eru nettófjárhæðir þannig að búið er að taka tillit til sértekna málaflokka og deilda. Til frekari skýringar tökum sem dæmi leikskólann Krílakot en fyrir árið 2013 er áætlað að reksturinn kosti kr. 85.174.000 þegar búið er að taka tillit til sértekna leikskólans eins og leikskólagjalda.
Skatttekjur og sértekjur málaflokka og deilda eru þær tekjur sem þurfa að standa undir rekstri málaflokka í Aðalsjóði. Inni í þessum upphæðum fyrir hvern málaflokk og deild er leiga til Eignasjóðs (A-hluti) en þegar stofnun fær nýtt húsnæði og/eða endurbætt húsnæði þá greiðir Eignasjóður framkvæmdina og leigir húsnæðið til 40 ára. Þetta þýðir það að rekstur viðkomandi málaflokks /deildar í Aðalsjóði hækkar að því leitinu til.

Hægt er að smella beint á töfluna til að sjá hana stærri.

Þegar tekið hefur verið tillit til Eignasjóðs og B-hluta fyrirtækja (Félagslegar íbúðir, Fráveita, Hafnasjóður, Hitaveita, Vatnsveita og Fráveita) þá er áætlað að rekstrarniðurstaða A- og B- hluta árið 2013 verði jákvæð kr. 26.144.000.


Þeirri spurningu var varpað hér upp hvort að rekstur Dalvíkurbyggðar endurspegli hátt þjónustustig. Það sem kemur hér fram að ofan er ekki tæmandi upptalning og útlistun en varpar þó vonandi ljósi á að Dalvíkurbyggð er að gera mjög marga og góða hluti; bæði hvað varðar lögbunda grunnþjónustu og þjónustu við íbúana sem er umfram skyldur sveitarfélagsins. Þetta er til marks um að hátt þjónustustig hjá ekki stærra sveitarfélagi sem telur um 1.900 manns.

Endurspeglar rekstur Dalvíkurbyggðar hátt þjónustustig? pdf

Guðrún Pálína Jóhannsdóttir, sviðsstjóri Fjármála- og stjórnsýslusviðs