Endurbætur á Sundlauginni á Dalvík

Endurbætur á Sundlauginni á Dalvík

Nú standa yfir allsherjar endurbætur á sundlauginni á Dalvík. Framkvæmdin teygir sig frá hreinsibúnaði í kjallarar upp á allt sundlaugarsvæðið.

Á sundlaugarsvæði er verið að endurnýja allt svæðið, þó ekki þannig að þar verði miklar útlitsbreytinar. Þar má nefna að:

  • Pottar verða endurnýjaðir og stækkaðir (steyptir) en verða þó á sama stað.
  • Vaðlaugar verða einangraðar frá vatni sundlaugar og verður því hægt að hafa vatnið í þeim mun heitara en verið hefur til þessa.
  • Bláa lónið (sem staðsett er á milli heitu pottanna) verður einnig einangrað og sett á sjálfstætt stýrikerfi. Með þessu móti verður einnig hægt að hafa hitastig nokkrum gráðum heitara en verið hefur.
  • Öll flísalögn verður endurnýjuð en flísaleggja á potta, vaðlaugar og bláalón að utan og kant í sundlaug.
  • Nýju efni verður sprautað innan í sundlaugarkerið, potta og vaðlaugar. Um er að ræða plastefni sem kemur í stað málningar og heitir Aquabright. Markmiðið er að losna við alla málningu sem er undir vatni og þar með gera vatnið tærara.
  • Litla rennibrautin verður endurnýjuð og sveppurinn verður einnig endurnýjaður eða lagaður.

Hér að ofan eru upptalin þau verkefni sem eru sýnileg á svæðinu. Þessu fylgir að nýja jöfnunartanka þarf í jörð og allur hreinsibúnaður í kjallara hússins verður endurnýjaður. Að auki verður klórbúnaður endurnýjaður en hér eftir verður ekki keyptur tilbúinn klór heldur verður hann framleiddur úr salti á staðnum sem þykir mun heilsusamlegra fyrir notendur sem og starfsfólk.

Ný rennibraut verður ekki tekin í notkun í þessari framkvæmd, en gert er ráð fyrir nýrri rennibraut norðan megin á lóð sundlaugarsvæðis og mun hún ekki lengur fara beint ofan í laug eins og hún gerir í dag. Áætlanir sveitarstjórnar gera ráð fyrir nýrri rennibraut á næstu árum. Gamla rennibrautin mun áfram verða til staðar þar til ný rennibraut kemur.

Við minnum svo á að á meðan á framkvæmdum stendur verður íþróttamiðstöðin með Snapchat Dalvíkurbyggðar, notendanafnið er: dalvikurbyggd. Starfsfólk íþróttamiðstöðvarinnar ætlar að vera duglegt að „snappa“ frá framkvæmdum fram að verklokum, sem eru áætluð 19. júlí 2017. 

Sundlaug Dalvíkur