Eitt og annað ofarlega á baugi – frá sveitarstjórn.

Eitt og annað ofarlega á baugi – frá sveitarstjórn.

Ráðstefna um fiskeldismál laugardaginn 19. janúar.

Á morgun, laugardaginn 19. janúar verður ráðstefna á vegum Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar um fiskeldismál. Á ráðstefnunni verða flutt 7 fræðsluerindi um margvísleg atriði sem snúa að fiskeldi og eru nokkur þeirra með Eyjafjörð í brennidepli. Ráðstefnan er gott framhald af íbúafundi um laxeldismál sem haldinn var í Árskógi í október. Á þeim fundi kom fram ákall frá íbúum um frekari fræðslu á málefninu og áhrifum laxeldis í Eyjafirði í sem víðustum skilningi. Það er því von okkar að íbúar Dalvíkurbyggðar fjölmenni á ráðstefnuna sem hefst kl. 11:00 í Hofi. Aðgangur er ókeypis.

Gerð húsnæðisáætlunar

Samkvæmt bráðabirgðaákvæði í reglugerð um húsnæðisáætlanir sveitarfélaga sem gefin var út 21. desember 2018 skulu sveitarfélög ljúka við gerð húsnæðisáætlunar ekki síðar en 1. mars 2019. Húsnæðisáætlun er gerð til fjögurra ára í senn og skal endurskoðuð árlega. Skal hún byggja á greiningum um þörf fyrir íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu með tilliti til mismunandi búsetuforma. Við greininguna skal m.a. skoða framboð og eftirspurn eftir mismunandi búsetuformum og hvort jafnvægi ríki á húsnæðismarkaði. Þá skal meta þörf fyrir húsnæði til að mæta þörfum einstakra hópa s.s. fatlaðs fólks, aldraðra, tekju- og eignaminni og námsmanna, auk húsnæðisþarfar á almennum markaði. Áætlað er að ljúka gerð húsnæðisáætlunar Dalvíkurbyggðar fyrir lok febrúar nk.

Rýnihópar hefja vinnu

Við lok vinnu að gerð fjárhagsáætlunar 2019 í október samþykkti byggðaráð að farið yrði sem fyrst í heildstæða skoðun á rekstri og fjárfestingum sveitarfélagsins. Þetta var staðfest samhljóða í sveitarstjórn í nóvember.

Vinnuhóparnir fara af stað núna í janúar og sitja í þeim kjörnir fulltrúar ásamt sviðsstjórum.  Farið verður ofan í starfsemi og rekstur Dalvíkurbyggðar með það að markmiði að hagræða, auka skilvirkni  og minnka útgjöld.

Þetta eru helstu leiðarljósin. Að rekstur Aðalsjóðs verði sjálfbær. Að niðurstaða úr rekstri fyrir  A- og B- hluta verði ávallt jákvæð. Að halda áfram að greiða niður vaxtaberandi skuldir sveitarfélagsins. Að auka svigrúm fyrir nauðsynlegar fjárfestingar og framkvæmdir án lántöku. Að halda áfram að fækka húseignum sveitarfélagsins sem það nýtir ekki sjálft og/eða hefur ekki þörf fyrir. Að rekstur Dalvíkurbyggðar sé í samræmi við reglugerð um fjármálareglur sveitarfélaga og fjárhagsleg viðmið.

Gert er ráð fyrir að vinnuhópar fundi þrisvar og skili svo tillögum í lok febrúar.

Opin stjórnsýsla

Á 308.  fundi sveitarstjórnar þann 18. desember sl. var samþykkt samhljóða með 7 atkvæðum tillaga byggðaráðs um reglur Dalvíkurbyggðar um birtingu gagna með fundargerðum í ráðum og nefndum Dalvíkurbyggðar. Tilgangurinn með þessum reglum er að auka aðgang íbúa Dalvíkurbyggðar að gögnum sveitarfélagsins, fyrirtækja þess og samtaka  eftir því sem lög og reglur heimila.

Íbúalýðræði

Byggðaráð ákvað fyrir áramót að íbúafundur um framtíð Gamla skóla færi fram í febrúar. Verið er að undirbúa fundinn og safna gögnum. Fundurinn verður auglýstur á heimasíðu Dalvíkurbyggðar þegar nær dregur og hvetjum við íbúa Dalvíkurbyggðar til sýna málinu áhuga og mæta á viðburðinn.