Einstök sýningin á grafíkverkum eftir Jón Engilberts í Bergi menningarhúsi

Einstök sýningin á grafíkverkum eftir Jón Engilberts í Bergi menningarhúsi

Nú stendur yfir í Berg menningarhús sýning á verkum eftir einn merkasta grafíklistamann þjóðarinnar, Jón Engilberts.

Af því tilefni setti Guðmundur Ármann, myndlistamaður, niður nokkur orð um listamanninn.

,,Jón Engilberts, fæddur 1908, er einn af frumkvöðlum íslenskrar grafíklistar. Á sýningunni eru á annan tug grafíkverka, tréristur sem eru aðallega frá árunum 1930 – 40. Einnig eru á sýningunni verkfæri Jóns sem hann notaði við tréristur og skornir tréstokkar, myndmót sem myndirnar eru þrykktar af. Einnig má sjá merki Félags íslenskra grafíklistamanna sem Jón hannaði. Þetta er fróðleg sýning og þeim til sóma sem að henni standa en það eru Gréta Engilberts, afabarn listamannsins og maður hennar Hjörtur Sólrúnarson. Þá á sýningarnefndin í Bergi heiður skilið fyrir að hafa sett þessa merku grafíksýningu á dagskrá.

Vil að lokum óska þess að íslensk listasöfn standi sig betur í því að sýna íslenska grafík sem er svo mikilvægur þáttur í sjónlistasögu okkar.“

Sýningin stendur til 9. apríl og er opin alla daga vikunnar, nema sunnudaga, milli klukkan 10:00 -17:00, laugardaga, 12:00 – 17:00.