Desemberspá Veðurklúbbsins á Dalbæ

Þriðjudaginn 1. des. 2015 komu félagar í Veðurklúbbnum á Dalbæ saman til fundar. Fundurinn hófst kl. 14:00 með einnar mínútu þögn í virðingarskini við nýlátinn klúbbfélaga Gunnar Rögnvaldsson, sem var virkur í starfi klúbbsins og lagði m.a. til veðurfarsvísurnar, sem fylgt hafa veðurspánni á þessu ári.

Fundarmenn voru sáttir við hvernig síðasta spá gekk í meginatriðum eftir þó svo að snjóað hafi heldur fyrr en reiknað var með og lítilega meira en klúbbfélagar ætluðust til .
Nýtt tungl kviknar 11. desember. kl. 10:29 í suðaustri og er það föstudagstungl. Veðurfar fimmtudag fyrir tunglkomu og mánudaginn þar á eftir er talið ráða miklu um hvernig veður verður út mánuðinn.
Gert er ráð fyrir að veðurfar í desember verði rysjótt. Hitastig verði svipað og var í nóvember og ekki megi búast við neinum frosthörkum þó svo að hitastig verði að mestu undir frostmarki, sem er ekki óeðlilegt á þessum árstíma.
Gert er ráð fyrir að nú verði hvít jól.


Klúbbfélagar senda öllum góðar óskir um gleðileg jól og farsældar á nýju ári. Einnig þakka þeir fyrir athygli sem veðurspá þeirra hefur vakið og góðar kveðjur sem klúbbnum hafa borist.

Veðurvísa mánaðarins .

Þó desember sé dimmur,
þá dýrðleg á hann jól.
Með honum endar árið
og aftur hækkar sól.

Með góðri kveðju og ósk um gleðileg jól

Veðurklúbburinn á Dalbæ