Desember - Tengja Húsabakkaskóla

Desember -Tengja

Fréttabréf Húsabakkaskóla Húsabakka 3. desember 2004

Heil og sæl og takk fyrir síðast.

Okkur á Húsabakka og jólaföndurnefndinni þótti það vel þess virði að prófa að hafa föndurdaginn á skólatíma. Það kom í ljós að foreldrar fjölmenntu í skólann til þess föndra með börnum sínum, þrátt fyrir vinnudag.  Það er mikil vinna fyrir fámennt foreldrafélag að standa að slíkum degi og vil ég nota tækifærið, fyrir hönd nemenda og starfsfólks, og þakka foreldrafélaginu og þá sérstaklega föndurnefninni, fyrir vel heppnaðan föndurdag.           

Þegar þetta er skrifað er lengdum skóladögum eldri nemenda um það bil að ljúka. Þeir hafa farið vel fram og allt gengið samkvæmt áætlun. Nemendur hafa verið duglegir að skrifa í Bleðil og er hann um það bil að verða tilbúinn. Einnig hefur gengið vel á leiklistarnámskeiðinu.

Bleðill seldur -miðvikudaginn 8. desember:

Bleðill er á eftir áætlun í ár og eru það afleiðingar verkfalls.  Hann fer í prentun föstudaginn 3. desember og eftir skóla þann 8. desember ganga nemendur 5. - 8. bekkjar í hús á Dalvík og selja Bleðil. Það þýðir að nemendur 5. - 8. bekkjar eru í skólanum þar til Bleðill kemur glóðvolgur  úr prentsmiðjunni. Nemendur fá kvöldmat í skólanum kl. 18:30, rútur sækja þá kl. 19:00 og keyra þeim niður á Dalvík. Eins og undanfarin ár geta nemendur lokið Bleðilsölunni með sjoppuferð og er mælst til þess að foreldrar stilli nammipeningum í hóf. Þegar Bleðilsölu og sjoppuferð er lokið verður nemendum úr Svarfaðardal og Skíðadal keyrt heim. Foreldrar geta búist við börnum sínum heim milli kl. 20:30 og 21:00.

 

Lokahönd lögð á skreytingar að Rimum og í skóla - föstudaginn 10. des:

Frá klukkan 11:00 og til klukkan 13:30 munu nemendur og starfsfólk skreyta sameiginlegt rými okkar í skólanum og Rimar.



Jólatónleikar nemenda Tónlistarskóla Dalvíkur-þriðjudaginn 14. des:

Jólatónleikar nemenda Tónlistarskóla Dalvíkur sem einnig eru nemendur Húsabakkaskóla verða í litla salnum á Rimum þriðjudaginn 14. desember kl. 14:00. Yngri nemendur sem ljúka skóladegi sínum kl. 13:30 og verða annað hvort áheyrendur eða spila á tónleikunum fá gæslu milli kl. 13:30 og 14:00, en foreldrar verða að sjá þeim fyrir fari heim að tónleikum loknum. Allir eru velkomnir á tónleikana.

Litlu jólin 16. - 17. desember:

Fimmtudaginn 16. desember fara rúturnar frá fremstu bæjum kl. 10:00 og frá Dalvík kl. 10:30. Þegar börnin koma í skólann er byrjað á því að hver bekkur er með umsjónarkennara sínum í bekkjarstofu. Þar verður lesin jólasaga og farið í leiki. Eftir það er snæddur hádegisverður og að honum loknum undirbúa nemendur sig fyrir leiksýninguna, en hún hefst klukkan 14:00 og er í stóra salnum að Rimum. Allir sem vilja eru velkomnir á leiksýninguna meðan húsrúm leyfir.

            Samkvæmt venju verður dansað í kringum jólatréð þegar skemmtuninni er lokið og boðið síðan til kaffihlaðborðs sem er á vegum skólans. Kaffiveitingarnar verða að Rimum.

            Yngri börnin fara heim með foreldrum sínum að loknu kaffiboðinu en nemendur

5. - 8. bekkjar gista í skólanum.

Föstudaginn 17. desember fara rútur frá fremstu bæjum kl. 10:00 og frá Dalvík kl. 10:30. Þann dag er venjan að nemendur og starfsfólk skólans gangi til helgistundar í Tjarnarkirkju og að helgistund lokinni er gengið til baka að Húsabakka og snætt hangikjöt, laufabrauð, jólaöl og ís. Reiknað er með að rútur fari frá Húsabakka kl. 13:00.

Jólafrí er 20. des. - 4. janúar:

Starfsdagur kennara er 3. janúar og kennsla hefst samkvæmt stundaskrá þriðjudaginn 4. janúar 2005.

Jólapósturinn:

Tekið verður á móti jólapóstinum í sveitina frá og með þriðjudeginum 14. des. og fram að því að hann verður flokkaður. Hann verður flokkaður og borinn út laugardaginn 18. desember. Undir hvert bréf kostar 25 kr. og fyrir pakkann kostar 100 kr. Snjókarlinn tekur á móti bréfum og pökkum í anddyri Rima.

Til þess að hægt sé að flokka og bera út jólapóstinn þarf að aðstoða jólasveinana við það verk og að þessu sinni eru það nemendur 8. bekkjar sem taka að sér þá aðstoð. Flokkun hefst klukkan 10:30 þann 18. desember og í kringum hádegið leggja jólasveinarnir af stað með póstinn. Oftast hefur ekki tekið nema einn til einn og hálfan klukkutíma að keyra út póstinum. Enn vantar þrjá aðstoðarmenn/bílstjóra til þess að aðstoða nemendur og jólasveina við flokkunina og akstur.

Með þessari síðustu Tengju ársins vill starfsfólk Húsabakkaskóla senda foreldrum og forráðamönnum nemenda við Húsabakkaskóla sem og öðrum velunnurum skólans bestu óskir um gleðileg jól og gæfuríkt komandi ár. Við þökkum gott samstarf og þá sérstaklega þann stuðning sem starfi skólans hefur verið sýndur á árinu sem er að líða. Við hlökkum til þess að hefjast aftur handa með ykkur á nýju ári.

Jólakveðjur frá Húsabakkaskóla

Ingileif

 

Minni á heimasíðuna okkar:  http://www.husabakkaskoli.ismennt.is/