Dalvíkurskóli með fjórar milljónir frá upphafi þátttöku í UNICEF-hreyfingadeginum

Dalvíkurskóli með fjórar milljónir frá upphafi þátttöku í UNICEF-hreyfingadeginum

Grunnskólabörn víða um land taka jafnan þátt í UNICEF-hreyfingardeginum, sem skólarnir velja að halda þegar best hentar. Þá skipuleggja skólarnir fræðslu- og íþróttadag sem helgaður er áheitaverkefni til styrktar UNICEF-hreyfingunni.

Börnin safna áheitum úr sínu nánasta umhverfi þar sem margt smátt gerir eitt stórt. Áherslan er ekki lögð á háar upphæðir heldur vinna börnin öll saman að einu og sama markmiðinu.

Dalvíkurskóli hefur tekið þátt í UNICEF-hreyfingardeginum um árabil og hefur árangurinn jafnan verið mjög góður en dagurinn er fastur liður á skóladagatali skólans og taka allir nemendur og starfsmenn þátt. Nú í vor safnaði skólinn rétt um hálfri milljón króna fyrir UNICEF en í gegnum tíðina hefur skólinn lagt inn rúmar fjórar milljónir króna og trónir á toppnum af þeim 70 skólum sem taka þátt í UNICEF-hreyfingardeginum.

Guðný Ólafsdóttir hefur haldið utanum UNICEF-hreyfingardaginn fyrir hönd Dalvíkurskóla. Að hennar mati gerir það gæfumuninn að dagurinn hefur verið hluti af skóladagatalinu undanafarin ár og því almenn þátttaka hjá nemendum. Að auki segir hún jákvæðni ríkja hjá nemendum og starfsfólki í garð þessarar söfnunar.

Fyrir utan það að hlaupa fá nemendur fá kynningu á starfi UNICEF sem hjálpar þeim að skilja betur stöðu þeirra barna í heiminum sem búa ekki við sömu mannréttindi og okkur finnst vera sjálfsögð auk þess að fá að sjá með beinum hætti hvernig söfnunarfénu er varið og hverju þau geta komið til leiðar með þessum hætti. Einnig héldu nemendur flóamarkað til styrktar UNICEF á þemadögum skólans í vor en undanfarin ár hafa einnig verið haldnar tombólur til styrktar sama málefni.