Dalvíkurbyggð í 7. sæti draumasveitarfélaga

Forsendur í einkunnagjöf

Skattheimtan þarf að vera sem lægst. Sveitarfélög með útsvarshlutfallið 12,35% fá 10 og sveitarfélög með hlutfallið 13,03% fá núll. Skalinn er í réttu hlutfalli þar á milli.

Breytingar á fjölda íbúa þurfa að vera hóflegar. Fjölgun á bilinu 1,6 til 3,6% gefur 10 og frávik um 1% frá þessum mörkum lækka einkunnina um einn heilan.

Afkoma sem hlutfall af tekjum á að vera sem næst 10%, sem gefur einkunnina 10. Dreginn er frá 1 fyrir hvert prósentustig sem sveitarfélag er fyrir neðan 10% hlutfall. Dreginn er hálfur frá fyrir hvert prósentustig yfir 10%. Þó fá sveitarfélög með tekjuafgang yfir 10% aldrei lægra en 5,0 í einkunn.

Hlutfall skulda af tekjum sé sem næst 1,0. Frávik um 0,1 yfir þessu hlutfalli lækkar einkunnina um 1,0 frá einkunninni 10. Frávik um 1,0 fyrir neðan þetta hlutfall lækkar hana um 0,5. Ef skuldir eru mjög litlar getur það bent til þess að sveitarfélagið haldi að sér höndum við framkvæmdir.

Veltufjárhlutfall sé nálægt 1,0 (sem gefur 10) þannig að sveitarfélagið hafi góða lausafjárstöðu en hafi ekki of mikla peninga í lélegri ávöxtun. Frávik um 0,1 neðan við hlutfallið gefur 2 í frádrátt. Frávik um 0,1 fyrir ofan hlutfallið gefur 1 í frádrátt. Hlutfall yfir 1,5 gefur einkunnina 5.

Allir þessi þættir gilda jafnt.