Dalvíkurbyggð höfðar mál á hendur ríkinu til að verja afréttinn

Hinn 25. maí 2009 voru kröfur fjármálaráðherra um þjóðlendur á vestanverðu Norðurlandi kynntar af óbyggðanefnd. Í Dalvíkurbyggð náði þjóðlendukrafan til almennings í Skíðadal/Sveinstaðaafréttar, Hnjótaafréttar og Múlaafréttar. Eftir að gögn og skýringar höfðu komið fram féll nefndin alveg frá kröfu í Múlaafrétt, í Sveinstaðaafrétt að hluta og Hnjótaafrétt að hluta. Þann 10. október sl.var síðan kveðinn upp úrskurður í málinu og ljóst að samkvæmt honum eru Hnjótaafréttur að stórum hluta og Sveinstaðaafréttur að hluta lýstir þjóðlendur. Bæjarstjórn hefur tekið ákvörðun um að höfða mál á hendur ríkinu til að verja afréttinn, eða þann hluta sem var af óbyggðanefnd úrskurðaður sem þjóðlenda. Ólafur Björnsson hdl. mun fara með málið fyrir hönd Dalvíkurbyggðar, en hann er líklega sá lögfræðingur sem hefur orðið mesta reynslu af því að kljást við þessi mál.

Úrskurður óbyggðanefndar liggur fyrir en við bindum vonir við að ný gögn komi fram sem styrki stöðu sveitarfélagsins í þessu máli. Ólafur mun einnig freista þess að afla gjafsóknarleyfis og ef það fæst verður kostnaður sveitarfélagsins væntanlega mjög viðráðanlegur.