Dalvíkurbyggð ekki með í Útsvari

Vegna breyttra keppnistilhögunar í Útsvari verður Dalvíkurbyggð ekki með í keppninni þetta árið. Eins og fram kemur hér fyrir neðan lenti Dalvíkurbyggð í hópi 11 sveitarfélaga þar sem hlutkesti réði því hvaða sex sveitarfélög voru valin til keppni þetta árið og var Dalvíkurbyggð ekki eitt af þeim.

Í tilkynningu frá RÚV kemur fram; Spurninga- og skemmtiþátturinn Útsvar hefur á liðnum árum verið eitt allra vinsælasta efnið í íslensku sjónvarpi. Frá upphafi hefur þátttaka í keppninni tekið mið af íbúafjölda sveitarfélaga, sem þýtt hefur að fámennari bæir og sveitir hafa ekki átt kost á að vera með þrátt fyrir mikinn áhuga.

Til að koma til móts við þessi sjónarmið, hefur verið ákveðið að taka upp nýtt keppnisfyrirkomulag fyrir veturinn 2013-14. Þátttökulið verða sem fyrr 24 talsins og skiptast þau sem hér segir:

i) Fimmtán sæti.

Þau lið sem komust í 2. umferð keppninnar á síðasta vetri. Þar sem Garðabær og Álftanes hafa nú sameinast í eitt sveitarfélag, er um að ræða fimmtán keppnislið í stað sextán.

(Reykjavík, Akureyri, Reykjanesbær, Garðabær, Mosfellsbær, Akranes, Fjarðabyggð, Seltjarnarnes, Skagafjörður, Ísafjörður, Fljótsdalshérað, Grindavík, Hornafjörður, Fjallabyggð og Snæfellsbær.)

ii) Sex sæti.

Valin verða með hlutkesti sex af þeim ellefu sveitarfélögum sem féllu út í fyrstu umferð á síðasta vetri og/eða hafa fleiri en 1.500 íbúa.

(Kópavogur, Hafnarfjörður, Vestmannaeyjar, Borgarbyggð, Norðurþing, Hveragerði, Ölfus, Dalvík, Rangárþing eystra, Sandgerði, Rangárþing ytra.)

iii) Tvö sæti.

Valin verða með hlutkesti tvö af þeim 22 sveitarfélögum sem hafa á bilinu 500 og 1.500 íbúa.

iv) Eitt sæti.

Valið verður með hlutkesti eitt af þeim 25 sveitarfélögum sem hafa færri en 500 íbúa.

Eftir að dregið hefur verið, munu fulltrúar RÚV hafa samband við stjórnendur viðkomandi sveitarfélaga. Treysti þeir sér ekki til að þekkjast boðið, verður nýtt nafn dregið úr viðkomandi flokki.