Dagur íslenskrar tungu

Í gær var Dagur íslenskrar tungu en hann hefur verið haldinn hátíðlegur á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar, þann 16. nóvember, síðan árið 1996. Hérna í Dalvíkurbyggð hafa grunn - og leikskólar sveitarfélagsins fagnað honum með ýmsum hætti. Á Leikbæ hafa börnin verið að læra kvæðið Systir mín eftir Jónas Hallgrímsson og í dag kemur Sigurlaug Gunnlaugsdóttir úr félagi eldri borgara og segir börninum frá lífinu í gamla daga. Krílakot hélt upp á daginn fyrir helgin með söngfundi þar sem sungin voru fjölmörg skemmtileg íslensk lög. Í vikunni mun síðan 7. bekkur Dalvíkurskóla heimsækja leikskólann og lesa fyrir börnin. Í Árskógarskóla verður haldin samkoma í dag á bókasafninu en þar munu nemendur úr öllum bekkjum koma fram og lesa ljóð, sögur eða syngja. Dalvíkurskóli er einnig með dagskrá en þar hafa 1.-4. bekkur verið að æfa og syngja íslensk lög sem þau munu síðan syngja á Dalbæ, í Ráðhúsinu og Samkaup/Úrval í dag. Nemendur í 5. bekk fara í Mímisbrunn og flytja þar dagskrá, upplestur og frumsamin ljóð. Eldri bekkir skólans hafa svo verið að vinna með ljóð Steins Steinars.

Það er því heilmikið um að vera hjá grunn-og leikskólum sveitarfélagsins í tilefni dagsins og gaman að sjá hversu fjölbreytt dagskráin er.