Byggðarráð lýsir yfir vonbrigðum með Vegagerðina.

Byggðarráð lýsir yfir vonbrigðum með Vegagerðina.

Á fundi byggðaráðs þann 31. júlí sl. gerði sveitarstjóri grein fyrir fundi sem hún átti með starfsfólki Vegagerðarinnar þann 16. júlí sl.

Á fundinum með Vegagerðinni kom meðal annars fram að búið er að fresta framkvæmdum á Svarfaðardalsvegi (805) frá Tunguvegi að Göngustöðum. Gert er ráð fyrir rannsóknum á og í kringum veginn í ár og hönnun fari fram árið 2027. Framkvæmdir eru fyrirhugaðar á árunum 2028-2029, með fyrirvara um fjárveitingar.

Eftirfarandi er bókun byggðaráðs:

Byggðaráð lýsir yfir miklum vonbrigðum með þá tilkynningu Vegagerðarinnar, að framkvæmdir við Svarfaðardalsveg sem áttu að hefjast á næsta ári seinki um tvö ár. Það er hörmulegt að standa frammi fyrir þessari ákvörðun, þrátt fyrir ítrekaðar kvartanir á undanförnum árum á skorti á viðhaldi á þessum vegi, skorti á bundnu slitlagi sem og lélegum gæðum á því efni sem notað er við viðhald. Í október 2023 gaf SSNE út Samgöngu- og innviðastefnu Norðurlands eystra, þar kemur fram að Svarfaðardalsvegur er einn umferðarmesti malarvegurinn í landshlutanum. Í Svarfaðardal eru öflug bú sem þurfa þjónustu, það vinna margir utan býlis, íbúar þurfa að sækja þjónustu s.s. leik- og grunnskóla til Dalvíkur ásamt því að ferðaþjónustan fer vaxandi. Allt þetta hefur kallað á vegabætur í mörg undanfarin ár.

Fulltrúar Dalvíkurbyggðar verða á samráðsþingi með Innviðaráðherra í dag 12.ágúst á Múlabergi, Akureyri, sem haldið er í aðdraganda Innviðaþings sem haldið verður á Hilton Nordica í Reykjavík 28.ágúst nk.
Byggðaráð bendir á að samráðsþingið á Akureyri er öllum opið og hvetur áhugasama til þess að mæta, sjá nánar
https://www.dalvikurbyggd.is/is/frettir-og-tilkynningar/category/1/opinn-ibuafundur-med-innvidaradherra-12-agust