"Brostu með hjartanu" líka í Dalvíkurbyggð

Brostu með hjartanu“ er samvinnuverkefni Ásprent-Stíll og Akureyrarstofu og er markmið verkefnisins einfalt: Að að smita jákvæðni og bjartsýni til allra. Þau fyrirtæki og stofnanir sem vilja taka þátt í því að „brosa með hjartanu“ eiga þess kost að fá hjörtu til að líma í glugga, á veggi, bíla o.s.frv. án endurgjalds hjá Stíl að Óseyri 2. Aðstandendur átaksins vilja smita frá sér yfir stærra svæði en Akureyri og því geta fyrirtæki og stofnanir í Dalvíkurbyggð líka tekið þátt í þessu skemmtilega verkefni.

Það er vilji þeirra sem standa að átakinu að sem flestir taki þátt í því að smita jákvæðni og bjartsýni út á meðal fólks. Þátttakan í því að dreifa jákvæðni þarf ekki að vera flókin, enda hefur það sýnt sig að gleðin felst oftar en ekki í smáu hlutunum. Því meira af jákvæðni og bjartsýni því betra.

Einnig hefur verið settur saman listi með ljóðum og spakmælum sem vitna um jákvæðni, bjartsýni og virðingu fyrir gömlum gildum og um þessar mundir er verið að setja þau upp á ýmsum stöðum hingað og þangað um Akureyri. Það má líta á þessi spakmæli og ljóð sem litla konfektmola í dagsins önn.

Gaman er að segja frá því að þetta er einungis lítið brot af hugmyndinni sem ganga út á jákvæðni og bjartsýni. Á næstu dögum og vikum kemur í ljós hvað fleira er í farvatninu.

Við hvetjum alla sem hafa áhuga á að koma við hjá Stíl næst þegar þegar eiga leið um Akureyri og ná sér í hjörtu og taka þátt í verkefninu af fullum krafti.