Breytingar á umhverfis-og tæknisviði Dalvíkurbyggðar

Bæjarráð ákvað í lok ágúst að gerð yrði úttekt á skipulagi og starfsemi umhverfis- og tæknisviðs Dalvíkurbyggðar með það fyrir augum að auka skilvirkni sviðsins, en umhverfis- og tæknisvið fer með fjölbreytt verkefni s.s. málefni veitna, landbúnað, umhverfismál, bygginga- og skipulagsmál o.fl. Samþykkt var að fá fyrirtækjasvið KPMG til að vinna úttektina. KPMG skilaði endanlegum tillögum á fundi með bæjarráði þann 8. nóvember sl.


Tillögurnar gera ráð fyrir því að sviðið verði klofið upp og að veitur verði færðar undir sérstaka stjórn ásamt höfnum, en þessi fyrirtæki eru B-hlutafyrirtæki í sveitarfélagi sem þýðir að tekjur þeirra eiga að standa undir fjárfestingum og rekstri. Einnig að starf fulltrúa á sviðinu yrði lagt niður og verkefni þess flutt annars vegar á fjámálsvið Dalvíkurbyggðar og hinsvegar á stjórnendur umhverfis- og tæknisviðs og hafna- og veitna. Bæjarráð gerði tillöguna að sinni eða eins og segir í bókun bæjarráðs:
Bæjarráð samþykkir samhljóða þá tillögu um breytingar á skipulagi sviðsins sem lagt er til í úttektinni og leggur til við bæjarstjórn að tillagan verði staðfest í bæjarstjórn.

Bæjarstjórn staðfesti niðurstöðu bæjarráðs samhljóða á fundi sínum 20. nóvember sl. og vísar þá m.a. til skipurits þar sem B hluta fyrirtæki sveitarfélagsins; hitaveita, vatnsveita og fráveita eru settar undir sérstaka stjórn ásamt höfnum. Fyrirvari er þó um einstök starfsheiti í skipuriti og felur bæjarstjórn bæjarráði að fara betur yfir þau í samhengi við niðurstöður þeirrar vinnu sem farið verður í næstu vikur. 

Bæjarstjórn samþykkti jafnframt að fela bæjarstjóra að halda utanum þau verkefni sem vinna þarf samfara þessum breytingum s.s. að þarfagreining verði unnin vegna nýs starfs sviðstjóra umhverfis- og tæknisviðs og að aðrar starfslýsingar starfsmanna á umhverfis- og tæknisviði, sem og þeirra starfsmanna sem munu starfa hjá veitum og höfnum, verði yfirfarnar þar sem það á við. Einnig að erindisbréf þeirra nefnda og ráða sem málið varðar verði endurskoðuð m.t.t. þessara breytinga. Þá samþykkti bæjarstjórn að núverandi sviðstjóra umhverfis- og tæknisviðs verði boðið starf forstöðumanns B hluta fyrirtækja og að starf sviðstjóra umhverfis- og tæknisviðs verði auglýst um leið og nauðsynlegum undirbúningi er lokið. Stefnt verði að því að nýtt skipurit taki gildi frá 1. mars.


Þetta nýja fyrirkomulag mun hafa margvíslegar breytingar í för með sér. Ekki er gert ráð fyrir að starfsmönnum fjölgi þar sem ekki stendur til að ráða í stöðu sem losnaði þegar starfsmaður veitna fór á eftirlaun í sumar og eins og fram kemur er hluti verkefna fluttur annað og þar með starf lagt niður.


Það er von bæjaryfirvalda að með þessu skipulagi auðnist starfsmönnum Dalvíkurbyggðar að veita íbúum sveitarfélagsins enn betri og skilvirkari þjónustu.