Brennur og flugeldasala - bréf til íbúa

Ágætu íbúar Dalvíkurbyggðar

Gleðilegt nýtt ár.

Það hefur ekki farið fram hjá neinum hér í sveitarfélaginu að veðurguðirnir virðast hafa horn í síðu okkar. Hér hefur kyngt niður snjó og ófærð hamlað ýmsum árlegum venjum um jólahátíðina. Ein af þeim hefðum sem sumir neyddust til að láta fam hjá sér fara var sú venja að kaupa sér flugelda og skjóta í burtu gamla árið með pomp og prakt. Færð hamlaði íbúum Svarfaðardals og Árskógsstrandar að koma til Dalvíkur til að kaupa flugelda. Það sama átti reyndar einnig við íbúa Dalvíkur því þar dugði lítt að moka göturnar því þær fylltust jafn óðum af snjó. En lítið er við þessu að gera, áramótin búin og mörg börnin (og fullorðnir) svekktir yfir að ekki skyldi takast að skjóta burt árinu 2012.


Björgunarsveitin fór ekki varhluta af þessu veðri. Mestur hluti tímans milli jóla og nýárs fór í að aðstoða fólk hér í bænum. Vaktaskipti á heilbrigðisstofnanir, moka fólk út úr húsum, draga upp bíla, saga fallin tré frá útidyrahurðum ofl. Því snerist þessi tími hjá Björgunarsveitinni úr því að vera stærsti fjáröflunartími ársins í það að öll tæki okkar, tól og mannskapur vann sleitulaust í að aðstoða íbúa sveitarfélagsins. Alls vorum við með sex fullbreytta bíla fram yfir miðnætti á gamlárskvöld og byrjuð aftur í bítið á Nýjársdag, mest í aðstoð við að koma fólki milli staða í sveitarfélaginu til að sem flestir gætu verið með ástvinum yfir áramót.


En enn er von um að geta sprengt upp gamla árið og allar brennur í sveitarfélaginu eru eftir. Árlegar brennur á Böggvisstaðarsandi og Árskógssandi verða á laugardag. Í tengslum við þessa viðburði er tilvalið að skjóta upp flugeldum og rota jólin í stað áramótanna sem hurfu í snjó og byl. Við félagar í Björgunarsveitinni Dalvík leitum því til ykkar þegar sala okkar á flugeldum fyrir þrettándann verður um næstu helgi. Við skulum öll sameinast um það að halda okkar eigin áramót laugardaginn 5.janúar kl. 22:00 og skjóta saman upp flugeldum og kveðja þannig gamla árið endanlega.


Hér á eftir koma tímasetningar með viðburðum næstu helgar:

ATH að þrettándagleði sem vera átti á Húsabakka hefur verið sameinuð brennu á Dalvík. Að sjálfsögðu verður flugeldasýningin flutt líka.

Þrettándagleði með brennu á Böggvisstaðarsandi laugardaginn 5.janúar kl 20:30. Flugeldasýning verður svo á sama stað á sama tíma.

Brenna og flugeldasýning við Brimnesborgir á Árskógsströnd laugardaginn 5.janúar kl 20:00

Flugeldasalan er opin laugardag og sunnudag frá kl. 13:00-17:00.

Kveðja Björgunarsveitin Dalvík