Börn hjálpa börnum

Fimmtudaginn 6. maí fóru nemendur Húsabakkaskóla heim með upplýsingar um söfnun á vegum ABC barnahjálpar. ABC barnahjálpin stendur á hverju ári fyrir söfnun ber heitið Börn hjálpa börnum. Slagorð söfnunarinnar í ár er Gegn ólæsi. Safnað verður fyrir barnaskóla og verkmenntaskóla í Úganda og barnaskóla á Indlandi og einnig gefst fólki kostur á að styrkja fátæk og munaðarlaus börn til náms.
Átakið var formlega sett af stað með því að menntamálaráðherra, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur var afhent söfnunarspjald eins og greint var frá í fjölmiðlum dagana 30. apríl og 1. maí.

1. - 3. bekkur Húsabakkaskóla tók beiðni ABC barnahjálpar vel og ætlar að standa fyrir tombólu fyrir framan Úrval á Dalvík föstudaginn 7. maí kl. 15. Tekið er á móti varningi á tombóluna á Húsabakka samdægurs, einnig er hægt að koma munum heim til nemenda og umsjónarkennarans Yrsu. Hún á heima í Öldugötu 14 á Dalvík. Einnig ætla nemendur þessa námshóps að safna dósum og flöskum til styrktar ABC barnahjálp.

Það er vel við hæfi að nemendur Húsabakkaskóla aðstoði við söfnum gegn ólæsi vegna þess að í vetur hafa þeir í gegnum Yndislestrarverkefni skólans fengið að upplifa hve mikið yndi er hægt að hafa af lestri.