Börn frá Grænlandi í heimsókn í Dalvíkurbyggð

Börn frá Grænlandi í heimsókn í Dalvíkurbyggð

Þessa dagana eru stödd í Dalvíkurbyggð 5 ungmenni á aldrinum 11 - 13 ára frá vinabæ Dalvíkurbyggðar, Ittoqqortoormiit eða Scorysbysundi á Grænlandi. Þeim til aðstoðar eru Sabine Moratz og Dina Lorentzen en þær vinna báðar við Kutsadda, nokkurs konar skólavistun eða félagsmiðstöð fyrir börn frá 5 - 13 ára þar sem börnin geta komið eftir skóla á daginn og sinnt ýmsum viðfangsefnum. Sabine vinnur annars við ungbarnaeftirlit en sinnir störfum við Kutsadda í sjálfboðavinnu.
Á meðan dvöl hópsins stendur þá nýta börnin tímann til að læra að synda og gengur afar vel hjá þeim þrátt fyrir að hafa ekki fyrr stundað sund. Þau fara víða í heimsóknir, skólarnir í sveitarfélaginu njóta þess að fá þau í heimsókn með fyrirlestur og myndasýningu. Hádegisverð borða þau á hverjum degi með nemendum í Dalvíkurskóla. Þau fara á hestbak, fóru í Tungurétt á sunnudaginn, heimsækja Akureyri og Mývatnssveit auk þess að skoða sig frekar um í Dalvíkurbyggð og nágrenni.
Með heimsókninni er vonast til að hægt verði að treysta enn frekar bönd milli sveitarfélaganna og þeirra sem þar búa. Unnið er að því að finna leiðir til að aðilar í Dalvíkurbyggð geti heimsótt Ittoqqortoormiit við tækifæri og aðstoðað þær Sabine og Dinu við hið góða starf sem þær sinna í Kutsadda. Enn fremur eru væntingar um samskipti á víðari grundvelli t.d. á sviði ferða- og menningarmála.
Grænlensku börnin hafa skemmt sér vel og eru himinlifandi yfir öllu sem hér ber fyrir augu en þau hafa einnig getað miðlað mörgu merkilegu til jafnaldra sinna hér sem þau vissu ekki fyrr. Hópurinn fer af landi brott föstudaginn kemur, 12. september eftir að hafa dvalið hér í rúma viku.