Bókun bæjarráðs vegna niðurstöðu íbúakönnunar

Á fundi sínum 25. okt. sl. bókaði bæjarráð eftirfarandi í tilefni af niðurstöðum íbúakönnunar 20. okt. sl. um frístundabyggð á deiliskipulagi í landi Upsa.
1368 voru á kjörskrá og greiddu 675 atkvæði eða um 49% íbúa 18 ára og eldri. Já sögðu 207, nei sögðu 450. Auðir seðlar voru 17 og 1 ógildur.


Bæjarstjórn hafði sett þau mörk að kosningin yrði bindandi ef 66% íbúanna tæki þátt. Í kynningarbæklingi til íbúa fyrir atkvæðagreiðsluna kom einnig fram að annars yrði það mat bæjaryfirvalda hvað gert yrði með niðurstöðuna.


Bæjarráð samþykkir að beina því til bæjarstjórnar að sú niðurstaða að um 33% íbúanna höfnuðu frístundabyggð samkvæmt samþykktu deiliskipulagi verði virt og skipulaginu breytt í samræmi við það. Jafnframt verði því beint til umhverfisráðs að fara yfir það hvort þessi breyting kalli á það að gerðar verði frekari breytingar á deiliskipulaginu.