Björgvin Björgvinsson skíðamaður ársins 2008

Skíðasamband Íslands valdi 20. desember síðastliðinn skíðamann og skíðakonu ársins 2008 og varð Björgvin Björgvinsson frá Dalvík fyrir valinu sem skíðamaður ársins.

Björgvin hefur verið fremsti skíðamaður Íslands um árabil. Á árinu 2008 hefur Björgvin staðið sig mjög vel í hörðum heimi skíðaíþróttarinnar. Hann vann Eyja-álfubikarinn samanlagt, varð í öðru sæti í stórsvigi og risasvigi vann tvíkeppnina, keppnin fór fram í Ástralíu og Nýja Sjálandi. Björgvin náði góðum árangi í nóvember í tveimur fyrstu mótunum í Evrópubikar þar var hann í 8. og 10. sæti í svigi. Björgvin varð þrefaldur Íslandsmeistari á Íslandsmeistaramóti í svigi , stórsvigi og alpatvíkeppni.

Við óskum Björgvin til hamingju með þennan glæsilega titil.

Skíðakona ársins var valin Dagný Lind Kristjánsdóttir frá Akureyri. Dagný hefur verið fremsta skíðakona Íslands um árabil. Á árinu 2008 keppti Dagný Linda á 14 Heimsbikarmótum í bruni, risasvigi og tvíkeppni, hún var númer 123 á heimslista í bruni, 203 í risasvigi og 140 í tvíkeppni (svig+brun) sem voru hennar þrjár sterkustu greinar.

Dagný Linda varð þrefaldur Íslandsmeistari á Íslandsmeistaramóti í svigi, stórsvigi og alpatvíkeppni. Dagný var valin Íþróttamaður Akureyrar 2007.

Dagný Linda hefur nú lagt skíðin á hilluna og hætt æfingum og keppni.

Frétt fengin af www.ski.is