Birtir yfir borg og bæ

Birtir yfir borg og bæ
Atvinnulíf er að komast í samt horf aftur í Dalvíkurbyggð eftir um viku rafmagnsleysi. Viðgerðum á Dalvíkurlínu lauk í gær. Hægt og rólega er slökkt á varaaflsvélum og íbúarnir stinga jólaseríunum í samband.
 

„Við erum uppljómuð,“ sagði Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri í Dalvíkurbyggð, laust fyrir hádegi. Viðgerðum á Dalvíkurlínu lauk í gær og hægt og rólega er verið að slökkva á varaaflsvélum og tengjast landsnetinu. Katrín segir að þéttbýlið hafi verið tengt í gærkvöldi en þetta sé gert í skrefum. Smám saman séu íbúar að stinga jólaseríunum í samband og andrúmsloftið að breytast. 

Hún segir að það sé erfitt að trúa því að rafmagnið sé komið á. Hugsunin sé ennþá sú að spara rafmagnið og hún sé hálffeimin við að nota það. Þessi lífsreynsla kenni fólki að meta betur þau lífsgæði sem í rafmagninu eru fólgin.