Bakkabræður - sögusetur í Dalvíkurbyggð

Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra afhenti  nýverið 50 milljónir króna í atvinnustyrki til kvenna við athöfn sem fram fór í Þjóðmenningarhúsinu. Verkefnin að þessu sinni voru afar fjölbreytt, svo sem þjónusta af ýmsu tagi, framleiðsla, hönnun og félagsleg verkefni. Tíu umsækjendur fengu hæsta mögulegan styrk, 2 milljónir króna fyrir hvert verkefni. Að jafnaði hafa verið til ráðstöfunar um 15–20 milljónir króna. Styrkfjárhæðin var hins vegar hækkuð verulega á þessu ári og voru samtals 50 milljónir króna til úthlutunar. Tæplega 250 umsóknir bárust sjóðnum en styrkir voru veittir til 56 verkefna. Tæplega helmingur styrkjanna rennur til verkefna á höfuðborgarsvæðinu en rúmur helmingur til verkefna vítt og breitt um landið.

Meðal þeirra sem fengu styrk að þessu sinni var Kristín Aðalheiður Símonardóttir á Vegamótum en hún hlaut styrk upp á 1.000.000kr. til að gera viðskiptaáætlun og hanna verkefni sem heitir ,,Bakkabræður - sögusetur í Dalvíkurbyggð." Hugmyndi Heiðu gengur út á að koma á fót Sögusetri um þá Bakkabræður Gísla, Eirík og Helga, segja frá lífi þeirra í máli og myndum og bjóða gestum jafnframt upp á upplifandir sem tengjast sögum um þá. Þá er Sögusetrinu ætlað að laða að ferðamenn og glæða þá ferðaþjónustu sem fyrir er og auka afþreyingu á svæðinu. Sérstök áhersla verður lögð á afþreyingu fyrir börn.

Við óskum Heiðu til hamingju með þennan styrk og fögnum glæsilegu framlagi til ferðaþjónustu hérna á svæðinu.
Nánari upplýsingar um úthlutanir úr sjóðnum um atvinnustyrki kvenna er að finna á vef Félags-og tryggingamálaráðuneytisins www.felagsmalaraduneyti.is