Bakkabræðrasetur í Sigtúni

Bakkabræðrasetur í Sigtúni

Þeir sem átt hafa leið í gegnum Dalvík hafa ekki farið varhluta af framkvæmdum sem nú standa yfir í Ungó og Sigtúni. Í Sigtúni hafa þau hjónin Heiða og Bjarni lagt dag við nótt við undirbúning fyrir opnun Bakkabræðraseturs og kaffihúss í Siggabúð sem staðsett er á jarðhæð hússins. Heiða hefur unnið að undirbúningi Bakkabræðrasetur um nokkurt skeið. Bakkabræðrasetur er sýning á lífi og störfum þeirra Bakkbræðra sem taldir eru ættaðir eru frá Bakka í Svarfaðardal og gefið var líf í þjóðsögum Jóns Árnasonar.

Húsnæðið allt verður í anda Bakkabræðra en myndlistamaðurinn Vignir Þór Hallgrímsson hefur síðustu daga lagt einn vegginn undir teikningu af þeim bræðrum þar sem þeir sitja í lauginni og komast ekki upp úr þar sem þeir vita ekki hver á hvaða fót.

Við lok þessara framkvæmda mun anddyri Leikfélags Dalvíkur verða í Siggabúð, en opnað verður á milli Siggabúðar og núverandi anddyris leikfélagsins. Sú breyting er jákvæð fyrir húsið í heild sinni og mun auka notkunarmöguleika hússins.