Ásrún Ingvadóttir og Jón Þórarinsson eru heimsmeistarar í Brús 2008.

Ásrún Ingvadóttir og Jón Þórarinsson eru heimsmeistarar í Brús 2008.

Spilað var á 15 borðum í heimsmeistarakeppninni sem fram fór að Rimum á föstudagskvöldið en auk þess var spilað á þrem borðum í kennslu og æfingabúðum. Yfir sjötíu manns tóku þátt í brúsnum og var spilagleðin alls ráðandi sem aldrei fyrr. Samhliða heimsmeistarakeppninni fór fram keppni í svokölluðum at-brús þar sem keppnendur gátu spilað að vild að loknum hverjum kambi í heimsmeistarakeppninni. Voru allir á einu máli um að þessi tilhögun hefði hleypt enn meira lífi í keppnina. Gekk öll spilamennskan hraðar fyrir sig fyrir vikið, fleiri klórningar og meiri tilfinningahiti á allan hátt. Í at-brúsnum sigruðu þeir frændur, Jón Kristinn Arngrímsson og Jón Arnar Helgason og fá fyrir vikið að varðveita Gullkambinn góða næsta árið.

Ágæt þátttaka var í öllum dagskrárliðum hátíðarinnar á laugardeginum þrátt fyrir einmuna veðurblíðum og frábært skíðafæri í Böggvisstaðafjalli. Tuttugu og fjórir tóku þátt í sögugöngu með Sveinbirni Steingrímssyni og hlýddu á frásögn hans af byggðaþróun á Dalvík. Að lokinni göngunni þáðu þátttendur kaffisopa í Byggðasafninu Hvoli sem var opið í tilefni dagsins.

Um fimmtíu manns komu á tónleika Báru Grímsdóttur og Chris Foster þar sem þau sungu íslensk og ensk þjóðlög og léku á ýmis fornleg hljóðfæri s.s. langspil og íslenska fiðlu en einnig stigu á pall Samkór Svarfdæla og Kór Dalvíkurkirkju og fluttu verk og útsetningar eftir Báru.

Að loknum tónleikunum var slegið á málþingi í safnaðarheimilinu um stöðu og framtíð héraðsfréttablaða en tilefnið var 30 ára afmæli Norðurslóðar. Þar fluttu framsögu Gísli Einarsson fréttamaður, Bjarni Harðarson alþingismaður og Þuríður Jóhannsdóttir lektor. Fóru þau víða í erindum sínum sem öll voru fróðleg og bráðskemmtileg. Bjarni og Einar ræddu stöðu og hlutverk héraðsfréttablaða á almennum nótum og sögðu reynslusögur en Þuríður skoðaði Norðurslóð sérstaklega og fjallaði um þýðingu blaðsins fyrir sig sem brottfluttan Dalvíking og hvernig blaðið sinnti hlutverki sínu gagnvart lesendum.

Síðasti liður hátíðarinnar var svo hinn hefðbundni svarfdælski mars. Að þessu sinni voru 35 pör í marsinum. Hljómsveit Hafliða Ólafssonar lék fyrir dansinum af þrótti og Ingunn Margrét Hallgrímsdóttir stjórnaði öllu af röggsemi og stakri snilld. Hóf hún leikinn á því að kenna þátttakendum svokallaðan partí-polka sem sló samstundis í gegn og þegar búið var að fara í hina og þessa dansleiki, endaði marsinn með partí-polkanum góða. Að loknum hefðbundnum marsi var haldið áfram að dansa við undirleik Hafliða og félaga fram eftir kvöldi en síðan hélt hvert til sín heima eftir viðburðaríkan dag.