Áskorun til stjórnvalda að vinna að traustara starfsumhverfi sjávarútvegs


Ályktun atvinnumálanefndar Dalvíkurbyggðar frá 18. júní 2009 vegna breytinga á lögum um stjórn fiskveiða. 

Atvinnumálanefnd Dalvíkurbyggðar lýsir áhyggjum vegna þeirrar óvissu sem bæði nýjar og fyrirhugaðar breytingar á lögum um stjórn fiskveiða valda.

Staða fiskistofnanna og fiskveiðiráðgjöf er þannig að erfitt er fyrir mörg fyrirtæki að ná nauðsynlegri hagkvæmni í rekstri. Stóri vandinn er hve lítið má veiða af þorski. Þá magnar hin erfiða staða efnahagsmála upp óvissuna kringum greinina.

Dalvíkurbyggð á mikið undir því að stöðugleiki ríki í sjávarútvegi; stór hluti íbúanna vinnur við sjávarútveg þar sem fiskvinnsla er snar þáttur í atvinnustarfseminni. Það er því mikilvægt að stjórnvöld skapi greininni þá umgjörð sem þarf til að stöðugleiki sé sem mestur.

Atvinnumálanefnd skorar á stjórnvöld að vinna að traustara starfsumhverfi sjávarútvegs, bæði fyrir starfsfólk og fyrirtæki.