Ársreikningur 2012

Ársreikningur 2012 er nú kominn á heimasíðu sveitarfélagsins http://www.dalvik.is/stjornsysla/fjarmala--og-stjornsyslusvid/arsreikningar/Arsreikningar-2012/default.aspx 

Ræðu sveitarstjóra við fyrri umræðu um ársreikning Dalvíkurbyggðar fyrir árið 2012 má sjá hér fyrir neðan:

Ársreikningur Dalvíkurbyggðar vegna ársins 2012 liggur nú fyrir og er til fyrri umræðu í sveitarstjórn, en skv. lögum á ársreikningur að vera tilbúinn til endurskoðunar og afgreiðslu í sveitarstjórn þann 15. apríl. Sveitarstjórn skal síðan hafa lokið staðfestingu ársreiknings eigi síðar en 15. maí ár hvert.

Rekstrarniðurstaða
Rekstrarniðurstaða samkvæmt samanteknum rekstrarreikningi A og B hluta var jákvæð um tæpl. 43 millj.kr. á árinu 2012 og rekstrarniðurstaða aðalsjóðs var jákvæð um tæpl. 14 millj.kr. A hlutinn í heild sinni skilaði hinsvegar ekki nema 2 millj.kr. í afgang, en niðurstaða Eignasjóðs var neikvæð um tæplega 12 m kr.

Rekstrartekjur á árinu 2012 námu 1.620.875 millj.kr. samkvæmt samanteknum rekstrarreikningi fyrir A og B hluta. Rekstrartekjur A hluta námu 1.304.639 millj.kr.

A og B hluti skiluðu samtals 210 millj.kr. í veltufé frá rekstri. Veltufjárhlutfall var 1,05.

B hluta fyrirtæki
B hluta fyrirtækin koma almennt vel út á árinu 2012. Félagslegar íbúðir voru með jákvæða niðurstöðu um tæpar 22 m kr. Hafnasjóður skilar ríflega 23 m kr. afgangi, Hitaveita Dalvíkur skilar afgangi uppá tæpl. 23 m kr. Vatnsveita skilar tæpri milljón, en Fráveita er með halla uppá ríflega 6 m kr. Það þarf að skoða stöðu Fráveitu sérstaklega því hún er enn með miklar skuldir vegna framkvæmda.

Fjárfesting og skuldir
Fjárfesting í varanlegum rekstrarfjármunum varð um 155.561 millj. kr. Það voru einkum framkvæmdir við skólahúsnæði í Árskógi, við Dalvíkurhöfn og við veitur. Engin lán voru tekin á árinu en eldri lán greidd niður um 182.007 millj. kr. Sveitarfélagið seldi sjö íbúðir á árinu sem hefur sín áhrif á uppgreiðslu lána.

Eigið fé sveitarfélagsins, A og B hluta, í árslok 2012 nam 2.026.473 millj.kr. samkvæmt efnahagsreikningi og eiginfjárhlutfall var 56,3%.

Skuldahlutfall Dalvíkurbyggðar, A og B hluta, er tæplega 87% en samkvæmt nýjum sveitarstjórnarlögum á það að vera undir 150%.

Þessar niðurstöður staðfesta trausta stöðu sveitarfélagsins. Það eru hinsvegar ákveðnir veikleikar, eða ógnanir, sem við verðum líka að horfa til.

Laun og starfsmenn
Laun og launatengd gjöld á árinu 2012 námu alls 50,7% af heildartekjum á móti 49,1% á árinu 2011, en starfsmannafjöldi hjá sveitarfélaginu nam 122 stöðugildum í A hluta sem er fjölgun um 11 frá árinu 2011 og munar þar mest um skammtímavistun fyrir fötluð börn sem tók til starfa á árinu. Alls voru stöðugildi hjá sveitarfélaginu, A og B hluta, 129.

Íbúum hefur fækkað um hundrað á tveimur árum. Þessa sér enn ekki stað í útsvarsgreiðslum, en við skulum þó frekar búa okkur undir að þær muni gefa eftir ef ekki fjölgar aftur í bráð. Það hefur þegar verið tekið upp í framkvæmdastjórn að við þurfum við gerð fjárhagsáætlunar 2014 enn að skerpa sýn okkar á reksturinn, og þá ekki síður tekjumöguleika sveitarfélagsins.

Eins og sést þegar við berum okkur saman við önnur sveitarfélög, sem við teljum að séu sambærileg að ýmsi leyti, við horfum gjarnan til Fjallabyggðar og Snæfellsbæjar, þá eru tekjur á mann mun hærri þar. Ef horft er á skatttekjur, þ.e. útsvar, fasteignagjöld og framlög Jöfnunarsjóðs, þá eru tekjur á mann í Dalvíkurbygð kr. 513, í Snæfellsbæ kr. 585 (munar kr. 72 á mann) og í Fjallabyggð kr. 572 (munar kr. 59 á mann). Heimild er Árbók sveitarfélaga 2011.

Mest munar um útsvarið en í Dalvíkurbyggð er það kr. 304 þúsund á mann, í Snæfellsbæ kr. 363 og í Fjallabyggð kr. 362. Það munar sem sagt um 60 þús.kr. í útsvarinu á mann milli Dalvíkurbyggðar og þessara samanburðarsveitarfélaga. Við höfum útskýrt þennan mun þannig að það munaði um sjómennina, en Dalvíkurbyggð hafi hinsvegar fiskiðnaðarfólkið sem hafi einfaldlega ekki eins háar tekjur.Tekjur þessara sveitarfélaga frá Jöfnunarsjóði eru nánast á pari en tekjur af fasteignasköttum nokkru hærri í Snæfellsbæ en hér og svo lægri en hér í Fjallabyggð.

En við höfum líka verið að huga að þjónustutekjum og gjaldskrám sem við þurfum einnig að passa uppá að gleymist ekki að uppfæra eða jafnvel setja þar sem heimildir og fyrirmyndir liggja fyrir.

Ég nefni einnig reksturinn sem er, og þarf að vera, sífellt til skoðunar, því það er ljóst að inni í öllum kerfum, ekki síst velferðarkerfunum, en e.k. sjálfvirkur vöxtur þannig að við þurfum sífellt að vera á tánum til að hamla því að hann vaxi út úr korti. Ég mun ásamt fjármálstjóra eiga fundi með sviðstjórum á næstunni til að fara yfir stöðun hjá hverjum og einum.

Eins og áður hefur komið fram lítum við á þessa skoðun á ársreikningi og umræðu um hann sem undirbúning fyrir gerð fjárhagsáætlunar 2014. Undir vorið er síðan rétt að stjórnsýslunefndin komi saman og fjalli um fjárhagsramma næsta árs, og á þeim vettvangi er rétt að fara yfir það ef áhugi er fyrir nýbreytni í rekstri.