Ársreikningur 2010 til fyrri umræðu í bæjarstjórn

Ársreikningur 2010 hefur nú verið tekin til fyrri umræðu í bæjarstjórn Dalvíkurbyggðar og staðfesta niðurstöður traustan rekstur sveitarfélagsins. Rekstrarniðurstaða Dalvíkurbyggðar samkvæmt samanteknum rekstrarreikningi A og B hluta var jákvæð um 159 millj.kr. á árinu 2010 og rekstrarniðurstaða A hluta var jákvæð um 135 millj.kr.

Rekstrartekjur á árinu 2010 námu 1.414,9 millj.kr. samkvæmt samanteknum rekstrarreikningi fyrir A og B hluta, sem er 45 millj.kr. umfram áætlun. Rekstrartekjur A hluta námu 1.159,7 millj.kr. sem er 24 millj.kr. umfram áætlun.

A og B hluti skiluðu samtals 278 millj.kr. í veltufé frá rekstri.

Öll fyrirtæki sveitarfélagsins í B hluta; Félagslegar íbúðir, Hafnasjóður, Hitaveita, Vatnsveita og Fráveita, voru með jákvæða rekstrarniðurstöðu á árinu 2010.

Eigið fé sveitarfélagsins, A og B hluta, í árslok 2010 nam 1.925,2 millj.kr. samkvæmt efnahagsreikningi, en eigið fé A hlutans nam 1.626,5 millj.kr.
Eiginfjárhlutfall A og B hluta er 0,53 en var 0,43 í lok árs 2009.

Fjárfesting í varanlegum rekstrarfjármunum varð um 400 millj.kr. á árinu 2010, þar af 339 til byggingar íþróttamiðstöðvar, sem lokið var á árinu. Tekið var lán að upphæð 105 millj.kr til að ljúka byggingu miðstöðvarinnar og er það eina lánið sem tekið var vegna þessarar miklu framkvæmdar, en heildarkostnaður við bygginguna ásamt tækjum og búnaði er um 650 millj.kr.

Laun og launatengd gjöld á árinu námu alls 664,442 eða 47% af rekstraratekjum á móti 631,4 millj.kr. eða 45,3% af rekstrartekjum ársins á undan, en stöðugildi hjá sveitarfélaginu voru alls 119 á móti 115 á árinu á undan. Annar rekstrarkostnaður á árinu nam alls 430,176 sem er 30,4% af rekstrartekjum sem er ríflega 3 millj.kr. lægra en árið á undan, en þá var annar rekstrar-kostnaður 31,15% af rekstrartekjum.
Íbúafjöldi 1. desember 2010 var 1.958 og hafði þá fjölgað um 7 frá fyrra ári.