Annar dagur Gönguviku - Þverárdalur, Vatnsdalur

Þá er fyrsti dagur Gönguviku liðinn og fyrsta gangan fullgengin. Það var átta manna harðsnúinn hópur sem gekk í kringum Skjöldinn. Lagt var upp kl. 10:08 frá Atlastöðum í ágætu veðri sem gat þó brugðið til beggja vona. Eftir því sem leið á daginn gerði veðrið ekkert annað en að batna. Þegar komið var upp í Sandárdal tók við mikil snjóganga þar sem varla nokkurn staðar sá á dökkan díl. Þannig hélst það þar til komið var niður í Skallárdal.


Kl. 13:10 var hópurinn kominn í Sandskarð í um 970 m h.y.s. Eftir stutt stopp þar var haldið ofaní Hvarfdal, sem er þverdalur upp af Fljótum í Skagafirði. Við þurftum að lækka flugið um eina 200 metra áður en við fórum að hækka okkur upp í Hvarfdalsskarð í botni Hvarfdals. Þangað vorum við kominn kl 14:13 og þá var kominn brækju hiti og glampandi sólskin. Hvarfdalsskarð er í um 840 m h.y.s. Það er ansi bratt ofanúr Hvarfdalsskarði og niður í botn Skallárdals, en sú ferð gekk vel, enda mikill snjór sem hjálpar við þær aðstæður. Nú hófst ganga niður Skallárdal í fögru veðri og í bílana vorum við kominn kl. Stundvíslega 17:00 eftir um 7 tíma og 15,8 km gang, það er fínn tími ef út í það er farið.

Á morgun er svo dagur tvö, þá verður gengið fram Þverárdal í Skíðadal, upp í Vatnsdalsskarð (1070 m.h.y.s) og niður í Vatnsdal og endað við Kot í Svarfaðardal. Það er um 18,8 km leið, og tekur 9 til 10 tíma að ganga. Veðurspá er ágæt og allt klárt, ekki satt?