Annáll ársins 2008 - Styrkurinn er hér og við eigum heilmikið inni -

Nú er búið að taka saman annál fyrir árið 2008 sem er aðgengilegur hérna á heimasíðunni. Þrátt fyrir ýmis áföll á fjármálamörkuðum á síðastliðnu ári verður það ljóst við lestur annálsins að ýmislegt hefur gerst hér jákvætt og skemmtilegt og hefur annálnum því verið valið nafnið -Styrkurinn er hér og við eigum heilmikið inni-.

Skrifað var undir ýmsa samninga á árinu og viljayfirlýsing við Greenstone ehf um byggingu allt að 50.000 fermetra gagnavers var undirrituð. Sett var upp lyfta í Ráðhúsinu og stofnanir sveitarfélagsins voru merktar. Ýmsar framkvæmdir voru svo sem gatnagerð, skógreiturinn fyrir neðan Brekkusel var lagfærður, gengið var frá Fráveitu Dalvikur og hafnarmannvirki voru lagfærð. Menningarhúsið rís jafnt og þétt og er vel á áætlun.

Unga fólkið stóð sig vel á árinu og tók þátt í söngkeppni Samfés, settu upp barnadagskrá í Leikhúsinu, opnaði heimasíðu á Krílakoti, hélt Vetrarleika og stóð sig frábærlega á Stóru upplestrarkeppninni. Eyþór Ingi sigraði í Bandinu hans Bubba og Sonja Björk frá Ytra - Garðshorni í Svarfaðardal var kjörin fegurðardrottning Norðurlands. Hljómsveitin Ofnæmir, skipaðir vöskum piltum úr sveitarfélaginu, hélt sína fyrstu tónleika.

Íþróttalífið stóð í blóma og kristallaðist kannski í glæsilegum árangri skíðafólksins okkar en þeir Björgvin Björgvinsson og Kristinn Ingi urðu samtals fjórfaldir Íslandsmeistarar á Skíðamóti Íslands. Sundfélagið Rán fagnaði 10 ára afmæli og Dalvík/Reynir lenti í 3. sæti í sínum riðli í 3. deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Íþróttamaður ársins í DAlvíkurbyggð var svo kjörinn 30. desember eins og venja er og varð Björgvin Björgvinsson fyrir valinu.  

Svarfdælskur Mars var haldinn helgina 14.-16. mars með tilheyrandi keppni í brús. Leikfélagið setti upp jóladagskrá undir nafninu "Er nálgast jólin" en verkið var samið af heimafólki. Öflugt starf var í Menningar-og listasmiðjunni og kórarnir okkar komu fram við ýmis tækifæri. Árið var gott fyrir Byggðasafnið sem stóð fyrir ýmsum sýningum.

Og margt, margt fleira skemmtilegt átti sér stað sem of langt mál er að telja upp hér. Til þess að sjá annálinn í heild sinni er því hægt að smella hér. Einnig verður hann aðgengilegur á heimasíðunni undir þessari slóð http://www.dalvik.is/Um-Dalvikurbyggd