Annað upplýsingabréf sveitarstjóra

Annað upplýsingabréf sveitarstjóra

Vegna samkomubanns og takmarkana stjórnvalda.

Kæru íbúar Dalvíkurbyggðar.

Þá er komin hátt í vika þar sem þjónusta stofnana Dalvíkurbyggðar hefur verið aðlöguð að takmörkunum stjórnvalda vegna útbreiðslu kórónu veirunnar. Þjónusta flestra stofnana hefur breyst, verið skert að einhverju leyti eða takmörkuð. Engu að síður höfum við reynt að halda uppi þjónustustiginu, að því marki sem húsnæði og mannafli leyfir.

Sveitarstjórn fundaði á föstudag og bókaði þakkir til stjórnenda Dalvíkurbyggðar fyrir að leysa hratt og örugglega úr málum. Einnig þakkir til starfsfólks alls fyrir jákvæðni, samheldni og einhug í einstaklega krefjandi verkefni. Þá ber að þakka íbúum fyrir þolinmæði og góða aðlögunarhæfni að ríkjandi ástandi.

Á fundi sveitarstjórnar var einnig kynnt „Viðbragðsáætlun Dalvíkurbyggðar við heimsfaraldri inflúensu“. Áætlunina er að finna á heimasíðu Dalvíkurbyggðar undir frétt um takmarkanir á starfssemi stofnana Dalvíkurbyggðar vegna COVID-19. Búið er að stofna viðbragðsteymi sem fundar reglulega og fylgist með þróun mála dag frá degi. Öll starfsemin miðar að því að koma í veg fyrir að heill vinnustaður lendi í sóttkví og að starfsemin lamist. Ljóst er að stjórnendur og stofnanir geta þurft að breyta tilhögun á starfsemi sinni með skömmum fyrirvara eftir því hvernig mál þróast.

Almannavarnir hafa biðlað til stjórnenda leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila að taka jákvætt í það að þeir aðilar sem sinna samfélagslega mikilvægri þjónustu svo sem í heilbrigðisgeiranum og viðbragðsgeiranum fái forgang fyrir börn sín í vistun. Dalvíkurbyggð mun taka þetta alvarlega og beinir því til vinnuveitenda að hafa beint samband við stjórnendur viðkomandi stofnana til samráðs um þetta málefni.

Í gær samþykkti Ríkisstjórn bráðabirgðaákvæði við sveitarstjórnarlög sem heimilar tímabundið notkun fjarfundabúnaðar fyrir fundi nefnda og ráða. Þetta mun Dalvíkurbyggð tileinka sér strax fyrir fagnefndir og fer t.a.m. fundur byggðaráðs í dag fram í fjarfundi.

Í ljósi þess að veiran er að dreifast víðar um landið og hefur valdið álagi í litlum byggðarlögum vil ég beina þeim tilmælum til íbúa Dalvíkurbyggðar að þeir takmarki ferðalög og allan samgang á milli byggðarlaga. Einnig að við öll takmörkum heimsóknir utan að komandi á meðan þetta ástand varir en nýtum frekar símann og samfélagsmiðla til samskipta. Einhverjum kunna að finnast þetta harkaleg tilmæli en nú þegar hefur skapast álag á heilbrigðiskerfin á norðurlandi og við verðum að leggja okkar að mörkum til að halda því álagi í skefjum eins og kostur er.

Munum að huga að heilsunni, bæði þeirri andlegu og líkamlegu. Einnig að huga að samstarfsfólki, nágrönnum og einstæðingum í okkar nánasta umhverfi.

Með bestu kveðjum.

Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri.