Ályktun um skerðingu námsmöguleika

Á fundi byggðaráðs Dalvíkurbyggðar þann 27. nóvember síðastliðinn var eftirfarandi samþykkt:

Byggðarráð Dalvíkurbyggðar mótmælir harðlega þeim áformum stjórnvalda að skerða möguleika fólks á svæðinu til náms enda er það samfélagslegur ávinningur íbúanna á svæðinu að hér sé áframhaldandi uppbygging á námstækifærum sem ýta undir það að ungt fólk sjái tækifæri að setjast að í sinni heimabyggð sem og að laða að nýja íbúa. Byggðarráð telur mikilvægt að halda áfram jákvæðri uppbyggingu á svæðinu sem er í takt við áform stjórnvalda um eflingu byggða á landinu.

Byggðarráð tekur heilshugar undir ofangreinda ályktun skólanefndar og styður við bókun bæjarráðs Fjallabyggðar sem er eftirfarandi, sbr. fundur 18. nóvember sl.:
"Bæjarráð Fjallabyggðar mótmælir harðlega þeim áformum stjórnvalda að skerða möguleika til framhaldsnáms í sveitarfélaginu. Áform þessi virðast hvorki tilgreina hvaða sparnaður eða faglegi ávinningur næst né hvaða tækifæri liggja í þessum breytingum fyrir nýjan skóla sem sannað hefur gildi sitt og hefur ávallt verið rekinn innan fjárlaga.

Menntaskólinn á Tröllaskaga er ein af grundvallarstofnunum samfélagsins sem hefur veitt fólki möguleika á að stunda framhaldsskólanám í sinni heimabyggð.

Fólk eldra en 25 ára hefur í miklum mæli stundað nám við skólann en með boðuðum breytingum mun slíkt ekki standa fólki til boða. Með þeim er vegið að starfsemi og sjálfstæði skólans og því skorar bæjarráð á þingmenn kjördæmisins að koma í veg fyrir að þessi áform verði að veruleika."