Ályktun um Reykjavíkurflugvöll

Á síðasta fundi sveitarstjórnar Dalvíkurbyggðar, þann 16. desember, var eftirfarandi ályktun samþykkt:

Sveitarstjórn Dalvíkurbyggðar lýsir yfir miklum áhyggjum vegna áforma Reykjavíkurborgar að þrengja enn frekar að Reykjavíkurflugvelli með samþykktum sínum um Hlíðarendasvæðið. Sveitarstjórnin skorar á borgarstjórn Reykjavíkur að taka til greina fjölda athugasemda sem gerðar hafa verið við þau áform.


Ekki þarf að hafa mörg orð um að staðsetning flugvallar í Vatnsmýrinni er nauðsynleg lífæð á milli landsbyggðar og höfuðborgar, það liggur í augum uppi. Yfirgnæfandi meirihluti landsmanna og jafnframt Reykvíkinga vill flugvöllinn áfram í Vatnsmýrinni samkvæmt skoðanakönnunum og jafnframt skoruðu um 70 þúsund manns á Reykjavíkurborg að tryggja öllum landsmönnum óskerta flugstarfsemi í Vatnsmýri til framtíðar í undirskriftarsöfnum fyrir rúmu ári síðan.
Almannahagsmunir Íslendinga eru miklir af flugvelli í Vatnsmýri og nýtur það sjónarmið óskoraðs stuðnings mikils meirihluta landsmanna. Það vekur því furðu sveitarstjórnar Dalvíkurbyggðar að borgarstjórn Reykjavíkur skelli skollaeyrum við fjölda tilmæla um að standa vörð um Reykjavíkurflugvöll.