Allir leik og grunnskólar Dalvíkurbyggðar flagga grænfána

Allir leik og grunnskólar Dalvíkurbyggðar flagga grænfána

Fimmtudaginn 24. maí næstkomandi munu Dalvíkurskóli, leikskólinn Krílakot og leikskólinn Kátakot flagga grænafánanum. Leikskólinn Leikbær hefur nú þegar flaggað grænfánanum og í Tónlistarskóla Dalvíkurbyggðar er verið að vinna að flöggun. Þennan dag munu því allir leik- og grunnskólar Dalvíkurbyggðar hafa náð þeim frábæra áfanga að vera Grænfánaskólar og mega því flagga grænfánanum.

Síðan árið 2008 hefur verið unnið markvisst að því að allir skólar sveitarfélagsins séu skólar á grænni grein, en það var staðfest með leikskólastefnu sveitarfélagsins sem segir að allir leikskólar þess skuli vera Grænfánaskólar. Þannig tók sveitarfélagið markvissa stefnu í þessum mikilvæga málaflokki og þegar tónlistarskóli sveitarfélagsins hefur flaggað sínum fána verða allar skólastofnanir sveitarfélagsins Grænfánaskólar.

Það eru fulltrúar Landverndar sem afhenda Grænfánann en Landvernd stýrir Grænfánaverkefninu á Íslandi. Grænfáninn er alþjóðlegt verkefni með það að markmiði að auka umhverfismennt og styrkja umhverfisstefnu í skólum. Þeir skólar sem vilja komast á græna greina í umhverfismálum þurfa að stíga skrefin sjö, en það eru ákveðin verkefni sem efla vitund nemenda, kennara og annarra starfsmanna skólans um umhverfismál. Grænfáninn er veittur til tveggja ára í senn og að þeim liðnum þurfa skólar að gangast undir nýtt mat til þess að fá að flagga fánanum áfram.