Allir í sama liði – íbúaþing um fjölbreytileika mannlífs

Allir í sama liði – íbúaþing um fjölbreytileika mannlífs

21. nóvember sl. var haldið málþing í Bergi menningarhúsi á Dalvík undir yfirskriftinni ,, Allir í sama liði – íbúaþing um fjölbreytileika mannlífs“ . Þingið var haldið á vegum Dalvíkurbyggðar með styrk úr Þróunarsjóði innflytjendamála. Þátttakendur á þinginu voru 50 talsins , íbúar með mismunandi bakgrunn, af ýmsu þjóðerni og úr öllum aldurshópum. Markmið þingsins var að ræða um þann fjölbreytileika sem einkennir okkar samfélag og hvaða tækifæri geta skapast þess vegna.


Aðalerindi þingsins hélt Guðrún Pétursdóttir félagsfræðingur en erindi hennar fjallaði um fjölbreytileika, fjölmenningu og fordóma. Í erindi Guðrúnar kom meðal annars fram að annað hvort er miklu betra eða miklu verra að flytja í lítið samfélag. Ef lítið samfélag er opið fyrir fjölbreytileikanum þá getur það verið auðveldara en að vera í stórri borg. Ef lítið samfélag er hins vegar ekki opið þá getur verið auðveldara að vera í stórri borg og geta látið sig hverfa.


Aðspurð um stöðu þessara mála almennt sagði Guðrún að samkvæmt rannsókn sem hún vann og birti síðastliðið vor kom fram að dulin form fordóma og mismununar eru algeng á Íslandi, eins og annars staðar, en opnar birtingarmyndir fordóma eins og ofbeldi, árásir eða skipulögð rasísk samtök eru mun færri hér en víðast hvar annars staðar. Könnunin leiddi í ljós að fólk verður helst fyrir fordómum í vinnunni. ,, Þessar duldu birtingarmyndir eru samt mjög alvarlegar þar sem þær eru yfirleitt fyrsta stig alvarlegri birtingarmynda. Ef samfélagið samþykkir þannig að ákveðnir hópar njóti minni virðingar og séu meðhöndlaðir verr er minni mótstaða ef til opinna fordóma eða mismununar kemur. Þetta eru oft atvik sem fólk gerir sér ekki endilega grein fyrir að séu særandi og valdi þeirri vanlíðan sem þau gera af því það hefur ekki upplifað þau sjálft sem hluta af sínu daglega lífi. Rannsóknir hafa hins vegar sýnt hvernig stöðugt virðingarleysi og niðurlægjandi framkoma getur haft afar alvarlegar afleiðingar fyrir þá sem fyrir því verða aftur og aftur í sínu daglega lífi. Fæstir vilja vera fordómafullir og þess vegna er hægt að vinna með þessi viðhorf og hegðun með fræðslu en það þarf líka vilja. Vilja til að nýta fjölbreytileikann til góðs og bæta líðan allra þegna – ekki bara sumra.“


Guðrún telur að sveitarfélögin séu að vinna að þessum málum hvert á sinn hátt. Sum sveitarfélög hafa verið að skipuleggja þjóðahátíðir einu sinni á ári. Guðrún segir að slíkar hátíðir skili ekki endilega tilætluðum árangri þar sem á þeim sé ákveðinn hópur dreginn fram sem ,,öðruvísi“ í staðinn fyrir að leggja áherslu á það sem sem fólk á sameiginlegt.


Að hennar mati er staðan í Dalvíkurbyggð nokkuð góð. Skólarnir hafa unnið markvisst að þessum málum og íbúafundurinn var einnig vel heppnaður segir hún. ,,Það eru nákvæmlega svona samræðufundir sem brjóta niður staðalmyndir og vekja fólk til umhugsunar. Á slíkum fundi er fólk af erlendum uppruna hluti af bæjarbúum, getur sagt sína skoðun (með aðstoð túlka ef það þarf), fólk hlustað á hvert annað og fundið lausnir í sameiningu. Það hefur t.d. vakið athygli meðal kollega minna erlendis að fundurinn var ekki skipulagður fyrir ákveðinn hóp fólks, heldur sætu einmitt bæjarstjórinn, stjórnmálafólk, unglingar úr grunnskólanum, verkafólk, kennarar o.s.frv af ýmsum uppruna saman í hópum og ræddu málin. Ég vildi að fleiri sveitafélög færu þessa leið til þess að benda á kosti fjölbreytileikans og auka um leið gagnkvæma virðingu fólks hvert fyrir öðru. „


Auk þess að hlýða á fyrirlestur tóku þátttakendur virkan þátt í umræðunni undir dyggri stjórn Guðrúnar. Hún sett umræðuna fram undir þremur spurningum; Hverjir eru helstu kostir fjölbreytileikans? Hvað er erfiðast við að flytja í nýtt land? Hvað getum við gert til að gera móttöku innflytjenda betri? Þátttakendur töldu að helstu kostir fjölbreytileikans væru aukin víðsýni og umburðarlyndi, þróun samfélaga, minni fordómar, gerjun og sköpun og fl. Þeir töldu líka að það sem væri erfiðast við að flytja í nýtt landi væri að læra nýtt tungumál, að kveðja vini og ættingja, að eignast nýja vini, að finna út hvar á að fá aðstoð og spyrjast fyrir, að átta sig á ólíkri menningu og því hvernig hlutirnir eru gerðir, að tilheyra ekki hóp og svo framv. Þegar kom að því að svara hvað hægt sé að gera til að bæta móttöku innflytjenda voru ýmis svör. Meðal annars var nefnt að sýna jákvæðni og hjálpsemi, að sýna vingjarnlegt viðmót og láta náungann sig varða, að hjálpa fólki að komast inn í rútínu samfélagsins, að bæta upplýsingar um kerfi sveitarfélagsins og að viðurkenna styrkleika fólks og efla og nýta hæfileika þess. Fjölmargir aðrir punktar komu fram á þinginu en eru nefndir hér að ofan og verða þeir nýttir til áframhaldandi vinnu í þessum málum.


Auk Guðrúnar talaði á þinginu Annalou. Hún kemur frá Filippseyjum, hefur búið í Dalvíkurbyggð síðan 2004, talar frábæra íslensku, vinnur hjá Samherja og er orðin íslenskur ríkisborgari . Annalou talaði um fyrstu kynni sín af Dalvíkurbyggð og var sérstaklega beðin um að nefna bæði það jákvæða og neikvæða. Hún sagði það ánægjulegt að sjá hvað allt hefur breyst til hins betra. Orðrétt sagði hún ,,Ég óskaði þess fyrstu tvö árin mín að fólk hefði stundum meiri skilning á fólki af erlendum uppruna, að fólk geti lært og notið menningar saman, og núna finnst mér að þessi tími sé kominn!“


Það er álit þeirra sem þátt tóku að þennan seinni part í Bergi hefði myndast ótrúlegur samhljómur og samstaða meðal þátttakenda. Þarna var statt alls konar fólk, ungir, eldri, litlir, stórir, sumir þurftu túlk, aðrir ekki, en fyrst og fremst voru þarna íbúar sem allir höfðu það að markmiði að bæta okkar samfélag. Að gera Dalvíkurbyggð að betra samfélagi fyrir alla og taka fyrsta skrefið í þá átt að brjóta niður múra og sýna fram á að innst inni erum við öll eins, fæðumst eins og komum til með að kveðja þennan heim á sama hátt líka. Glímum við sömu sorgina og gleðina. Erum öll manneskjur sem tilheyrum sama samfélaginu.